Yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu hefur ákveðið að taka Landsréttarmálið fyrir. Málsaðilum var gert viðvart um þetta nú rétt í þessu.
Þetta kemur fram á vef Ríkisútvarpsins. Þetta verður að teljast áfangasigur af hálfu íslenskra stjórnvalda, því Sigríður Á. Andersen sagði af sér sem dómsmálaráðherra eftir að Mannréttindadómstóllinn dæmdi í mars sl. að íslenska ríkið hefði brotið gegn 6. grein Mannréttindasáttmála Evrópu með skipan dómara í hinn nýja Landsrétt.
Stjórnvöld áfrýjuðu dómnum til yfirdeildar Mannréttindadómstólsins og hefur staða dómsins og einstakra dómara verið í nokkru tómarúmi æ síðan.
Mjög sjaldgæft er að yfirdeild MDE taki dóma til endurskoðunar og verður að teljast líklegt að með þessu hafi aukist talsvert líkur á að úrskurði dómstólsins verði snúið við.