Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi Almannavarna í dag að aldrei hafi verið gefin út tilmæli um að ömmur og afar megi ekki hitta barnabörnin sín. Hann tekur undir að skerpa þurfi á því að börn leiki ekki saman utan skóla meðan samkomubann og takmarkanir á skólahaldi stendur yfir.
Viljinn spurði Þórólf á fundinum í dag út í bréf sem okkur barst frá tveimur konum á sjötugsaldri sem starfa sem kennarar. Þær lýstu áhyggjum af því að umgangast fjölda barna dag hvern á sama tíma og þær hefðu ekki viljað hitta eigin barnabörn í nokkrar vikur í samræmi við leiðbeiningar yfirvalda.
Sögðust þær ekki síst hugsi vegna þess að vandlega væri gætt að hólfaskiptingu í skólastarfinu og aðeins unnið með fáeinum hópi í einu, en svo væru allar slíkar takmarkanir foknar út í veður og vind að skóladeginum loknum og margvísleg hópamyndun til staðar á skólalóðinni og annars staðar.
Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands, sagði á upplýsingafundi Almannavarna og sóttvarnalæknis á dögunum, að foreldrar eigi ekki að fá ömmur og afa til að passa börnin nú „af augljósum ástæðum.“
Í skriflegu svari til Viljans í dag útskýrir Þórólfur betur við hvað hann átti á fundinum í dag.
„Leiðbeiningar okkar hafa gengið út að takmarka umgengi sem mest ef einstaklingar flokkast sem viðkvæmir einstaklingar. Undir það falla börn og eldri einstaklingar.“
Og hann bætir við:
„Við höfum aldrei sagt að afar og ömmur ættu alfarið að hætta að hitta barnabörnin þó að umgengnin ætti að vera takmörkuð, sérstaklega afar og ömmur eru með undirliggjandi sjúkdóma. Það er aldrei hægt að gefa út leiðbeiningar sem passa við alla. Enda geta afar og ömmur verið á ýmsum aldri.“
Eva Hauksdóttir er ein þeirra sem hefur vakið athygli á ósamræmi í tilmælum til fólks um samgang barna við ömmur þeirra og afa.