Áfengiskaup jukust hlutfallslega mest í apríl

Áfengiskaup jukust hlutfallslega mest allra útgjaldaliða milli ára í apríl, um 52%. Velta í raf- og heimilistækjaverslunum jókst einnig meira í apríl en í mars og sömu sögu má segja um veltu í byggingarvöruverslunum. Ætla má að aukin kortavelta í áfengisverslunum og í stórmörkuðum sé að einhverju leyti tilfærsla á neyslu sem annars hefði farið fram á veitingastöðum sem voru lokaðir.

Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbankans. Greiðslukortavelta dróst talsvert saman í apríl, meira en sem nam samdrættinum í mars. Samkomubann ríkti allan aprílmánuð og áhrifin af Covid-19-faraldrinum eru því sterkari þá en í mars. Innanlands dróst kortavelta tengd verslun og þjónustu saman um tæp 13% milli ára, sem er mesti samdráttur síðan í október 2009.

„Ef litið er til greiðslukortaveltu eftir útgjaldaliðum sést greinilega hvaða áhrif samkomubann hefur haft á neyslu. Aukin kaup á vörum í byggingarvöruverslunum og raf- og heimilistækjaverslunum má rekja til aukins tíma sem fólk varði innan veggja heimilisins meðan á samkomubanni stóð.

Þeir útgjaldaliðir sem drógust saman milli ára í mars, drógust flestir enn frekar saman í apríl, til að mynda kaup á skipulögðum ferðum, sem drógust saman um 96%, og kaup á gistiþjónustu, sem drógust saman um 80%. Viss kaup drógust minna saman í apríl en í mars og má þar nefna fatakaup og eins velta í verslunum með heimilisbúnað. Fólk gæti því hafa lagt leið sína í auknum mæli í þær verslanir sem voru opnar þegar leið á samkomubannið,“ segir þar ennfremur.

Hagsjá: Verulega breytt neysla í samkomubanni (PDF)