Það var Juan Moreno, lausamaður hjá þýska vikuritinu Der Spiegel, sem ljóstraði upp um að samstarfsmaður hans, stjörnublaðamaðurinn Claas Relotius, hefði ýkt frásagnir sínar í stað þess að segja satt og rétt frá í blaðinu.
Rætt er við Moreno (46 ára) á vefsíðunni The Local Germany á Þorláksmessu 23. desember þar sem honum er lýst sem einkar hógværum manni: „Ég er engin móðir Theresa,“ segi hann, eftir að hann hafa orðið þjóðkunnur í þýska fjölmiðlaheiminum og þótt víðar sé leitað. Hér verður stuðst við greinina eftir Rory Mulholland á vefsíðunni www.thelocal.de
Í um sjötíu ár hefur Der Spiegel notið virðingar fyrir hágæða blaðamennsku undir kjörorðinu: Segið hlutina eins og þeir eru. Nú hefur ritstjórn blaðsins í Hamborg hins vegar neyðst til að viðurkenna að einn af helstu blaðamönnum þess, Claas Relotius (33 ára) hafi um nokkurra ára skeið skreytt frásagnir sínar meira með skáldskap en fréttum.
Þetta kom í ljós eftir að Moreno hafði vikum saman farið í saumana á skrifum sem niðurbeygð ritstjórn blaðsins kallar nú „stórtækar“ falsfréttir.
„Fyrst vildu þeir (ritstjórarnir) ekki trúa þessu … þeir höfnuðu því,“ segir Moreno við The Local. Þeir héldu að Moreno væri afbrýðisamur í garð yngri starfsbróður sem baðaði sig í velgengni.
Relotius hafði hlotið mörg verðlaun eins og að CNN tilnefndi hann blaðamann ársins og í Þýskalandi hlaut hann viðurkenningu sem jafngilti Pulitzer-verðlaununum í Bandaríkjunum. Hann neyddist hins vegar til að segja af sér í fyrri viku.
Hann hafði afflutt sannleikann eða beinlínis samið af fingrum fram langar, fagurlega orðaðar frásagnir um efni eins og að kona ferðaðist með Biblíuna sína undir handleggnum á milli aftökustaða í Bandaríkjunum til að sjá dauðastríð dæmdra manna, um bandarísku knattleikjastjörnuna Colin Kaepernick eða um sýrlenskan táning sem ímyndaði sér að hann hefði óvart hrundið borgarastríðinu í landi sínu af stað.
Relotius kom hins vegar upp um sig þegar hann var sendur til að skrifa um hóp flóttafólks frá Mið-Ameríku á leið að landamærum Bandaríkjanna og reitti hópurinn með því Donald Trump Bandaríkjaforseta til reiði.
Relotius var sendur til að fylgjast með hópi í Bandaríkjunum sem hélt uppi vakt við landamærin til að bægja flóttafólkinu á brott. Moreno var sendur til að fylgjast með gangi mála Mexíkó-megin við landamærin.
Moreno sagði að hann hefði fengið slæmt hugboð um Relotius eftir að hafa lesið grein eftir hann mörgum árum áður og hann vildi ekki eiga við hann samstarf um þetta síðasta verkefni. Honum var hins vega skipað að vinna með stjörnublaðamanninum.
Grunsemdir um að maðkur væri í mysunni vöknuðu hjá Moreno þegar hann las það sem starfsbróðir hans hafði skrifað í sameiginlegri grein þeirra. Honum þótti það of gott til að vera satt og sendi yfirmönnum sínum viðvörun. Þeir neituðu að trúa honum.
Moreno brá sér í ferð til Bandaríkjanna og leitaði uppi þá sem voru sagðir mótmælendur í frásögn starfsbróður hans. Þeir sögðust aldrei hafa hitt neinn frá Der Speigel.
Moreno stóð þá ekki aðeins í þeim erfiðu sporum að þurfa að afhjúpa starfsbróður sinn, hann varð einnig að verja eigin starfsheiður því að nafn hans stóð við hlið nafns Retolius í höfundarlínu greinarinnar um flóttamannahópinn.
Hann valdi þann kost að upplýsa um það sem hann vissi. Hann hafði meðal annars fundið nokkur fölsuð tölvubréf frá Relotius sem áttu að vera frá fólki sem minnst var á í frásögn hans. Ritstjórarnir urðu að lokum að horfast í augu við bitran sannleikann.
Miðvikudaginn 19. desember birti ritstjórn Der Spiegel yfirlýsingu þar sem skýrt var frá hneykslinu. Það var stórt skref fyrir blað sem selst í 750.000 eintökum á viku og lesið er af um 6,5 milljón manns vikulega á netinu.
Í ritinu Columbia Journalism Review, heimskunnu tímariti um blaðamennsku hefur Der Spiegel verið lýst á þann veg að ritstjórn þess hafi aðgang að „stærsta kerfi í heimi til að sannreyna staðreyndir“. Frá því að yfirlýsing ritstjórnar Der Spiegel var birt hefur hún játað á sig sök og lofað að rannsaka hvernig í ósköpunum svona skammarleg starfsemi náði að festa rætur innan hennar. Allt verði gert til að hindra að þetta geti endurtekið sig.
Vegna alls þessa hefur athyglin beinst að Moreno og honum er hampað sem nýrri leiðarstjörnu þýskra blaðamanna og óvini falsfrétta.
Hann segist hvorki hafa sóst eftir þessari frægð og hann eigi hana ekki skilið.
Tilkynnt var sunnudaginn 23. desember að Der Spiegel ætlaði að kæra Claas Relotius til lögreglu eftir að upplýst var að hann hefði stolið fé sem gefið var í þágu sýrlenskra götubarna í Tyrklandi.
Í tilkynningunni sagði að blaðið hefði nú fengið upplýsingar um að Relotius hafi hrundið af stað söfnun meðal lesenda til stuðnings þeim sem hann lýsti í grein sem hann skrifaði en bankareikningurinn sem hann birti var á hans eigin nafni.
Blaðið sagði að það hefði ekki vitað um söfnunina og ekki lægi fyrir á þessari stundu hve miklu fé hefði verið safnað. Relotius hafði óskað eftir fénu þegar hann svaraði tökvubréfum sem lesendur greina hans sendu honum.
Greinin eftir Relotius birtist í Der Spiegel í júlí 2016. Ljósmyndari sem vann með honum að gerð hennar taldi verulegrar ónákvæmni gæta í henni. Ritstjórn Der Spiegel segir nú að hugsanlega hafi Relotius búið til tvær helstu sögupersónurnar, ung systkini.
Hann lýsti tilraunum sínum til að aðstoða þau í greinaflokki. Hann hefði meðal annars mánuðum saman reynt að fá leyfi fyrir þau til að koma til Þýskalands og verða ættleidd þar. Nú er sagt að þetta séu líklega einnig ósannindi.
Í nýjasta hefti vikuritsins segir að svindl og uppspuni Relotius sé það „versta sem gerst geti á ritstjórn“ nokkurs blaðs. Allt verði gert til að endurvekja traust í garð ritstjórnarinnar.
Af vefsíðu Varðbergs, vardberg.is. Birt með leyfi.