Afrek þín eða útlit skipta ekki mestu, heldur hvernig þú kemur fram við aðra

Margrét Þórhildur Danadrottning segir að það sé langbest að halda ró sinni í loftslagsmálunum.

Landið okkar verður sífellt auðugra. En er líf okkar auðugra en áður? spurði Margrét Þórhildur Danadrottning í nýársávarpi sínu, sem hún flutti að venju á gamlárskvöld, eins og þjóðhöfðingi Danmerkur hefur gert um árabil í beinni útsendingu, fyrst í útvarpi en síðar einnig í sjónvarpi.

Drottningin sagði að margir finni fyrir því að hraði hversdagsins hafi aukist svo mjög að erfitt sé að fylgja því eftir. Svo margt þurfi að gera, bæði í leik og starfi og við séum dugleg við að gera kröfur til okkar sjálfra. Við viljum ekki missa af neinu, við viljum helst allt og það strax.

Hún sagði að í öllum flýtinum höfum við orðið of spennt fyrir því að vera í sviðsljósinu. Það sé eins og sífellt fleiri krefjist þess að fólk dáist að sér, en taki síður eftir öðrum.  

„Ný tækni hefur skapað okkur ný tækifæri til samskipta við aðra. Það er hægt að tala við börnin sín og barnabörn gegnum FaceTime þótt þau séu hinumegin á hnettinum; það er stórkostlegt ánægjuefni. En hin nýja tækni hefur líka gert samskiptin ópersónulegri en áður, við erum sítengd (online) og gleymum því ef til vill að það er manneskja á hinum enda línunnar. Það er svo auðvelt að skrifa athugasemd eða deila ljósmynd sem getur verið særandi eða valdið miklum skaða,“ sagði drottningin.

Hún bætti því við, að sér þætti aukin tilhneiging til að njóta samveru með öðrum á yfirborðinu, án þess að vera í reynd viðstaddur. Við tökum okkur ekki nægan tíma í að skilja hvert annað, gleymum því að virða og bera umhyggju hvert fyrir öðru.

Verðum að gefa okkur tíma fyrir aðra

Drottningin beindi máli sínu svo sérstaklega að börnum í hópi áhorfenda og sagði:

„Aðalatriðið er ekki hvernig þú lítur út eða hverju þú hefur áorkað. Það sem skiptir máli er hvert þú ert og hvernig þú kemur fram við aðra — vini eða skólasystkin. Ef þú ert alltaf upptekinn af eigin ávinningi muntu missa sjónum af því hvernig öðrum gengur.

Þú verður að gefa þér tíma til þess að taka eftir því að vinur sé óhamingjusamur. Það verður að vera tími til þess að skilja að eitthvað sem þú sagðir hafi sært vin þinn, eða þú hafir strítt einhverjum of mikið. Það er mikilvægt að gera hlutina upp af og til.

Þetta á ekki aðeins við um börnin, við hinir fullorðnu ættum einnig að hafa þetta í huga.

Traust skapast þegar við ræðum saman augliti til auglitis. 

Við getum vel verið ósammála, það er okkar réttur. Það er hluti af því að hugsa og mynda sér skoðun. En við verðum alltaf að hlusta á aðra og reyna að skilja andstæð sjónarmið. 

Þetta á við um þjóðfélagið allt. 

Sameiginlegur styrkur okkar þrífst á því að bera virðingu fyrir öðrum manneskjum og treysta hvert öðru. Við höfum hlutverki að gegna í samfélaginu. Þetta er kjarninn í okkar þjóðfélagi.

Ef ræturnar eru ekki heilbrigðar, mun tréð ekki standa. Það mun taka nýtt tré mörg ár að vaxa og ná sambærilegri stærð,“ sagði drottningin ennfremur.

Hún bætti því við að sér þyki sorglegt að horfa upp á hnignun ákveðinna gilda. Stundum mætti velta því fyrir sér hvað hefði orðið um um góða almenna breytni. Ekki eigi að vera svo erfitt að þekkja muninn á réttu og röngu í lífinu.

Þessi grein er hluti af safni Viljans af jákvæðu, fræðandi og uppbyggilegu efni. Okkur finnst vanta meira af slíku efni á Netinu. Þótti þér þessi grein fróðleg? Deildu henni þá til þeirra sem þú telur að gætu haft gagn að henni.