Aftur tekur veiran kipp: „Það eru rauð flögg alls staðar“

„Aftur tekur veiran kipp. Það eru rauð flögg alls staðar,“ segja vísindamennirnir Jóhanna Jakobsdóttir og Thor Aspelund í færslu á fésbókinni í kvöld, en þau eru í tölfræðiteymi vísindamanna við Háskóla Íslands sem halda úti spálíkani um veirufaraldurinn hér á landi.

Í færslunni segja þau ljóst, að við Íslendingar séum ekki að ná tökum á ástandinu.

„Smitstuðullinn hefur farið upp aftur. Var að nálgast einn og við viljum ná honum undir einn. Nú rís hann í 2,5 (spábil um 2 – 4). Ef smitstuðullinn helst lengi fyrir ofan 1 endar ástandið í veldisvísisvexti. Ef hann er t.d. 2 smitar einstaklingur að jafnaði 2 aðra, þeir smita svo 2 aðra og koll af kolli.

Í samræmi við þessa óheillaþróun tekur spá um fjölda smita líka kipp. Fjöldinn gæti hækkað hratt en óvissan er reyndar mjög mikil. Hér sýnum við sviðsmynd, frekar en spá. Þessi sviðsmynd gerir ráð fyrir að við náum að koma hlutfalli sem greinist í sóttkví upp í 50% og að aðgerðir skili árangri þannig að smitstuðullinn fari niður aftur.“

Þau Jóhanna og Thor boða frekari rýni og spá frá teyminu á covid.hi.is í vikunni.