Afturkippur í Svíþjóð: Takmarka ferðalög til útlanda

Síðustu daga hefur orðið ljóst að kórónuveirufaraldrinum virðist hvergi nærri lokið í Svíþjóð. Þann 13. maí birtust tölur um að 147 manns hefðu látist á einum sólarhring af völdum veirunnar. Aðeins þremur dögum áður, þann 10 maí, voru hinsvegar eingöngu fimm dauðsföll talin á einum sólarhring. Sveiflurnar eru því gríðarlegar og ólgusjórinn birtist rækilega í kúrfu sem sveiflast upp og niður með reglulegu millibili.

Flest dauðsföll á einum sólarhring í Svíþjóð urðu þann 21. apríl sl., þar sem 185 manns létust vegna kórónuveirunnar. Síðasta sólarhring hafa orðið 117 andlát.

Heildarfjöldi látinna í Svíþjóð er í dag 3.646 manns. Um helmingur hinna látnu hafa dvalið á elliheimili eða notið heimilisþjónustu eldri borgara. Sænsk yfirvöld hafa nú ákveðið að ráða samtals 10.000 hjúkrunarstarfsmenn í þjónustu við aldraða til að stemma stigu við þróuninni. Mikið álag ríkir á elliheimilum, þá einkum í Stokkhólmi.

Margt er talið hafa farið úrskeiðis í baráttunni við útbreiðslu kórónuveirunnar í Svíþjóð og er léleg smitrakning og slæmur eða sumstaðar enginn varnarbúnaður talin vera meginorsök þess að faraldurinn hafi blossað sérstaklega upp á elliheimilum landsins. Dræm þekking er einnig talin hafa átt þátt í útbreiðslu sjúkdómsins þar sem yfir 40% starfsfólksins í Stokkhólmi er ófaglært og jafnvel ótalandi á sænsku.

Óttast er að stór hluti afleysingastarfsfólks hafi ekki séð sér fært að vera heima þrátt fyrir veikindi, vegna tekjutaps. Hafi því margir smitaðir mætt til vinnu með fyrirsjáanlegum afleiðingum.

Sænska utanríkisráðuneytið hefur framlengt takmarkanir á ferðalögum erlendis til 15 júlí. Þá er Svíum ráðlagt að ferðast takmarkað innanlands og felast tilmælin í því að halda sig í að hámarki 2 klukkutíma akstursfjarlægð frá heimilinu.