Agnes og Friðrik jarðsett að nýju í vígðri mold á Tjörn á Vatnsnesi

Úr glatkistunni: „Hinn 17. júní síðastliðinn voru grafin upp bein Agnesar Magnúsdóttur og Friðriks Sigurðssonar og jarðsett í kirkjugarðinum á Tjörn á Vatnsnesi. Framkvæmdi þá athöfn sóknarpresturinn þar, séra Sigurður Jóhannesson. Hinn 21. júní komu allmargir menn saman á hinum fornu brunarústum á Illugastöðum, og var þar beðið fyrir sálum þeirra Agnesar og Friðriks.

Ástæðan til þess, að beinin voru grafin upp og bænasamkoman haldin, var sú, að kona ein í Reykjavík, sem ritar ósjálfráða skrift, kvaðst margsinnis hafa fengið óskir frá hinu óhamingjusama fólki, Friðrik og Agnesi, um að „reynt yrði að milda málstað þeirra, sérstaklega Agnesar, og hafa áhrif á almenningsálitið í þá átt, og vekja samúð með þeim og skilning á öllum málavöxtum.“

Var leitað til biskups um leyfi til að grafa upp beinin, og var það veitt.“

Þannig hljóðar frásögn frá 17. júní 1934, en fjölmiðlar fjölluðu mjög um þennan atburð, enda tengdist hann síðustu aftökunni sem fram fór hér á landi, hinn 12. janúar 1830.  Þá voru tekin af lífi Agnes Magnúsdóttir vinnukona á Illugastöðum og Friðrik Sigurðsson bóndasonur frá Katadal. Þau höfðu verið dæmd til dauða fyrir morð á tveimur mönnum aðfararnótt 14. mars 1828, Nathans Ketilssonar bónda á Illugastöðum og Péturs Jónssonar frá Geitaskarði. 

Úr niðurstöðu dómsins yfir þeim Agnesi og Friðrik. / Þjóðskjalasafn Íslands.

Í Þjóðminjasafni er til sýnis í grunnsýningu safnsins höggstokkurinn og axarblaðið sem notað var við aftökuna 12. janúar 1830. Í Þjóðskjalasafni Íslands eru varðveittar heimildir um aðalpersónur sögunnar, til að mynda kirkjubækur, dómabækur, vitnisburðir og önnur opinber skjöl sem bera vitni um líf þeirra og örlög.

Í prestsþjónustubók Þingeyraklausturs er fært til bókar þann 12. janúar 1830 að greftraður hafi verið hjá réttarstaðnum, Friðrik Sigurðsson „Morðingi í fángahaldi á Þingeyrum“. Presturinn færði að auki í athugasemd að hann hafi verið hálshöggvinn fyrir morð tveggja manna. Á sömu opnu er fært til bókar að sama dag hafi verið dysjuð Agnes Magnúsdóttir „Sakapersóna haldin á Kornsá en líflátin hér í sókn“. Í athugasemd segir um Agnesi: „fyrir Morðsmeðvitund hálshöggvin“.

Varð að gerast fyrir sumarsólstöður

Í útvarpserindi Grjetars Fells, sem flutt var í Ríkisútvarpinu 1934 og birt í Lesbók Morgunblaðsins sama ár, sagði:

„Var þess sérstaklega óskað, að beðið væri fyrir sálum þeirra á brunarústunum á Illugastöðum, og að guðsþjónusta færi fram í sama skyni í Vatnstjarnarkirkju. En allt varð þetta að fara fram fyrir sumarsólstöður þessa árs.

Eru nú liðin rúmlega tvö ár síðan að þessu máli var fyrst hreyft að handan. Ýmis konar smá sannanir hrúguðust upp, svo að lokum varð ekki undan því komist að leggja trúnað á að vitsmunaverur þær úr öðrum heimi, er hér áttu hlut að máli, væru þær er þær sögðust vera.

Í þetta sinn er ekki unnt að tilgreina allar þær sannanir, enda ekki alltaf hirt um að vottfesta þær. En svo mikið er víst, að fast var eftir leitað um framkvæmdir og fékk málið að lokum á sig svo mikinn alvöru- og veruleikablæ, að viðurlitamikið þótti að sinna því ekki á þann hátt, sem um var beðið.

Hin yfirlætislausa kona, sem í þetta sinn var milliliður milli heimanna tveggja, komst ekki hjá því að reyna með einhverjum hætti að koma þessum óskum hinna framliðnu á framfæri í þessum heimi. Guðmundur Sigurjónsson Hofdal, ötull maður og greinagóður, bauð henni aðstoð sína. Páll hæstaréttardómari Einarsson var og fyrstur manna kvaddur til ráða, samkvæmt eindreginni ósk að handan. Leitað var til biskups um leyfi til að grafa upp bein þeirra Agnesar og Friðriks og jarða þau í vígðri mold, og skal það sagt biskupi til hróss, að hann leyfði það með ljúfu geði.“