Ágúst Ólafur er í meðferð: „Vandi minn er meiri en ég hafði áttað mig á“

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar.

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur rofið ríflega tveggja mánaða þögn og skýrir frá því í færslu á fésbókarsíðu sinni í dag, að hann snúi ekki á næstunni aftur til þingstarfa. Hann sé í áfengismeðferð á vegum SÁÁ og þurfi tíma til þess að endurheimta heilsu eftir það sem á undan er gengið.

Yfirlýsing þingmannsins er svofelld:

„Fyrir tveimur mánuðum tók ég mér launalaust leyfi frá þingstörfum eftir að hafa sýnt af mér óforsvaranlega hegðun og fengið áminningu frá trúnaðarnefnd flokksins. Fyrir þá hegðun og þann dómgreindarbrest skammast ég mín og iðrast mjög. Ég vil biðjast aftur innilega afsökunar á háttsemi minni. 

Ég hef notað þennan tíma til að endurskoða líf mitt og hef ég nú lokið fyrsta mánuði af áfengismeðferð hjá SÁÁ og sú meðferð stendur enn yfir. Hjálpin sem ég hef fengið innan SÁÁ hefur komið mér í skilning um þá afneitun sem ég hef verið í gagnvart sjúkdómi mínum. Áfengi var farið að hafa mjög neikvæð áhrif á líf mitt og það er sömuleiðis sárt að vita til þess að ég hef valdið öðrum vanlíðan. Áfengisvandi minn er vitaskuld engin afsökun fyrir hegðun minni og ég ber fulla ábyrgð á mínum gjörðum.

Sú ákvörðun að fara í áfengismeðferð hefur reynst mér gæfuspor. Ég hef þurft viðurkenna vanmátt minn og vera tilbúinn að þiggja aðstoð. Ég hef komist að því að vandi minn er meiri en ég hafði áttað mig á. Ég hef einnig upplifað á eigin skinni hvað sú þjónusta, fræðsla og ráðgjöf, sem SÁÁ veitir, er mikilvæg. 

Það er fátt sem mig langar meira en að vinna í þágu réttlátara samfélags en ég þarf að setja heilsu mína og meðferð í forgang. Ég mun því óska eftir því að fara í veikindaleyfi frá störfum mínum á Alþingi á meðan ég vinn að því að ná bata. Tíminn mun leiða í ljós hvenær ég muni taka aftur sæti á þingi. Ég vona að fólk sýni þeirri ákvörðun skilning.“