Áhættumat Landspítalans á borði ráðherra

Bráðamótaka Landspitalans Fossvogi.

Landspítalinn hefur lokið gerð áhættumats vegna opnunar landamæra Íslands sem áformuð eru þann 15. júní nk. og hefur það verið sent heilbrigðisráðherra, samkvæmt heimildum Viljans.

Viljinn óskaði í gær eftir afriti af hættumatinu frá heilbrigðisráðuneytinu, en við því hefur ekki verið orðið, enn sem komið er. Gert er ráð fyrir að sérstakur starfshópur ráðherra skili útfærðum tillögum um opnun landsins nk. mánudag. Í kjölfarið mun svo sóttvarnalæknir skila tillögum sínum til ráðherra.

Innan Landspítalans hefur borið á gagnrýni vegna þess að tilkynnt hafi verið um fyrirhugaða opnun án þess að áhættumat spítalans hafi legið fyrir. Áhættumatið var unnið í víðtæku samráði innan spítalans og eining er um það, samkvæmt heimildum Viljans.

Viðmælendur Viljans leggja áherslu á, að um áhættumat sé að ræða, en ekki spá um það sem gæti gerst. Áhyggjur sérfræðinga spítalans hafa einkum snúið að því að þótt fáir kunni að veikjast af veirunni í sumar eftir að landamærin opnast og nýsmit fara að berast til landsins, geti það haft mikil áhrif á aðra starfsemi spítalans. Ekki síst í sumar þegar skipuleggja þarf sumarleyfi starfsfólks eftir annasamar undanfarnar vikur og mönnunarvandi gæti komið upp.