Áhrif sjónvarpsumræðna ekki enn komin fram

Frá kappræðum á RÚV. /ruv.is

Ný könnun Prósents, sem birt er í Morgunblaðinu í dag, sýnir að Halla Hrund Loga­dótt­ir orku­mála­stjóri heldur enn for­ystu með 29,7%. Næst kemur Katrín Jak­obs­dótt­ir, fv. for­sæt­is­ráðherra, með 21,3% og segir blaðið hana aft­ur vera að sækja í sig veðrið eft­ir að hafa lækkað nokkuð bratt í liðinni viku.

Stutt og innan tölfræðilegra vikmarka er svo Bald­ur Þór­halls­son pró­fess­or. Þau Halla Tómasdóttir og Arnar Þór Jónsson bæta nokkuð við sig frá fyrri könnunum.

Föstudagurinn sl. var stór dagur þegar kom að sjónvarpskappræðum. Stefán Einar Stefánsson tók umtalað viðtal við Höllu Hrund í Spursmálum, þrír efstu skv. könnunum mættust í Pallborði Vísis og um kvöldið voru allir frambjóðendur í kappræðum Ríkisútvarpsins.

Athygli vekur, að nýja könnunin er ekki mælikvarði á það, hvernig landsmenn mátu frammistöðu frambjóðenda í þessum þáttum.

„Rétt er að taka fram að könn­un­in var gerð í liðinni viku og fram á gær­dag, en þorri svar­anna barst áður en sjón­varp­s­kapp­ræður for­setafram­bjóðenda fóru fram. Viðbúið er að þær hafi haft nokk­ur áhrif á fylgi fram­bjóðenda, sem þessi könn­un end­ur­spegl­ar ekki,“ segir Morgunblaðið og enn verður því að bíða eftir könnunum sem gefa til kynna áhrif sjónvarpsumræðnanna.