Áhrif stórs jarðskjálfta við Kleifarvatn metin –– margir eftirskjálftar

Jarðskjálfti af stærðinni M5.6 varð kl 13:43 í Núpshlíðarhálsi, 5 km vestur af Seltúni við vestanvert Kleifarvatn. Yfir 50 eftirskjálftar hafa fylgt í kjölfarið og fara fjölgandi. Jarðskjálftinn fannst víða á landinu og hafa borist tilkynningar um að myndir hafi fallið af veggjum og smáhlutir dottið úr hillum á Suður- og Vesturlandi.

Engar tilkynningar hafa borist um meiðsli á fólki eða tjón á mannvirkjum, að því er fram kemur í tilkynningu frá almannavörnum.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra fylgist vel með í samvinnu við lögregluembættin á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnesjum og á Suðurlandi auk Veðurstofunnar. Lögreglumenn munu fara um svæðið, meðal annars í Krýsuvík, til að kanna áhrif skjálftans.

Óvissustig almannavarna hefur verið í gildi á Reykjanesi vegna landriss á svæðinu síðan 26. janúar.

Almannavarnadeild hvetur fólk á þekktum jarðskjálftasvæðum til kynna sér varnir og viðbúnað vegna jarðskjálfta á heimasíðualmannavarna:  https://www.almannavarnir.is/natturuva/jardskjalftar/varnir-gegn-jardskjalfta/
Þar er einnig að finna leiðbeiningar um viðbrögð eftir jarðskjálfta: https://www.almannavarnir.is/natturuva/jardskjalftar/eftir-jardskjalfta/