Það merkilega við stöðu Framsóknarflokksins í ríkisstjórnarsamstarfinu með Sjálfstæðisflokknum og Vinstri grænum, er að málefnalega hefur hann ekki fengið svigrúm til að blómstra. Öll rök hníga þó að því að miðjuflokkurinn í samstarfi VG og Sjálfstæðisflokks ætti að vera málefnalega þungavigtin í samstarfinu.
Þetta skrifar Þorsteinn Pálsson, fv. forsætisráðherra, í vikulegum pistli sínum á Hringbraut. Hann segir að af flokkunum þremur hefði Framsókn átt að fá mest af sínum málum fram. Þar af leiðandi hefði mátt reikna með að hún myndi styrkja stöðu sína verulega.
„Ef VG og Sjálfstæðisflokkurinn hefðu mæst málefnalega á miðjunni hefði Framsókn verið sjálfkrafa sigurvegari í því tafli. Veruleikinn er allt annar,“ segir Þorsteinn og bendir á að þriðji orkupakkinn sýni best þessa bágu málefnastöðu framsóknar.
„Stefna flokksins var samþykkt á miðstjórnarfundi í nóvember. Þar var innleiðingu evrópsku löggjafarinnar algjörlega hafnað. Hún var talin óskynsamleg og með afdráttarlausum orðum sagt: „Því skal fá undanþágu.“ Ráðherrar og þingmenn flokksins tóku fullan þátt í að móta þessa að því er virtist ófrávíkjanlegu stefnu. Engir fyrirvarar voru gerðir um breytta afstöðu ef frekari skýringar eða upplýsingar kæmu fram.
Ekkert mark tekið á samþykktinni
Hvorugur samstarfsflokka Framsóknar í ríkisstjórn virtist þó taka minnsta mark á þessari samþykkt. Enginn fjölmiðill sýndist líta svo á að samþykktin hefði áhrif á stjórnarsamstarfið. Það dróst að leggja fram málið á Alþingi vegna klofnings í Sjálfstæðisflokknum. Það var ekki fyrr en búið var að vinda ofan af andstöðu stórs hóps í þingflokki sjálfstæðismanna að unnt var að byrja þinglega meðferð.
Engar efnislegar breytingar urðu á málinu á þessum tíma og engar nýjar upplýsingar komu fram. Utanríkisráðherra og ráðherra orkumála hefðu enda aldrei farið af stað með málið ef það hefði snúist um eitthvað annað frá upphafi en að styrkja stöðu Íslands.
Eftir eðli máls eru þeir og verða á móti sem telja að evrópsk löggjöf eigi ekki að gilda á þessu sviði. Það er alveg heiðarlegur og málefnalegur ágreiningur. En þrátt fyrir skýra stefnu um annað samþykktu ráðherrar Framsóknar að standa með málinu og innleiða evrópsku löggjöfina. Sú kúvending þótti svo sjálfsögð að enginn fjölmiðill sá ástæðu til að gera hana að umtalsefni eða leita eftir skýringum.
Málamiðlanir er alltaf nauðsynlegar í stjórnarsamstarfi. En hér er kúvent frá ákvörðun sem samþykkt var fyrir fáeinum mánuðum og var beinlínis tekin sem þáttur í stjórnarsamstarfinu.
Augljóst er að forysta Framsóknar hefur ofmetið stöðu sína í samstarfinu þegar hún kom til miðstjórnarfundarins í nóvember. Fyrir þá sök verður málefnaleg niðurlæging flokksins meiri. Áhrifaleysið verður um leið augljósara.
En það er svo annað mál að stefnubreytingin var skynsamleg,“ segir Þorsteinn Pálsson ennfremur.