Áhrifamikil ræða Ásmundar: Var 17 ára í þeim sporum sem Grindvíkingar eru nú

„Hjarta mitt er fullt af djúpri samúð í garð Grindvíkinga. Æðruleysi þeirra er ótrúlegt í þeim hremmingum sem þeir eru að lenda í núna og það er afar mikilvægt fyrir okkur í þinginu að við tökum fast á málum og flýtum okkur eins hratt og hægt er. En ég veit að það er alveg sama hvað við munum hlaupa hratt í þinginu, þeim mun finnast spretturinn hægur. Þannig er það þegar maður býr við mikla örbirgð eða örvæntingu og reiði yfir stöðu sinni, þá er tíminn ótrúlega lengi að líða. En það er mikil reisn yfir þinginu í dag þegar við erum saman, hver einasti maður, að vinna að þessum málum fyrir hönd Grindvíkinga og ég tek undir það sem hér hefur verið sagt um að við mættum gera það oftar af því að þá liði okkur oftar betur en oft gerist hér á þessum stað,“ sagði Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í áhrifamikilli ræðu sem hann flutti í umræðum um skýrslu forsætisráðherra um Grindavíkurmálið á þingi í gær.

Ásmundur veit betur en margur hvað er að flýja byggðarlag sitt vegna eldgoss:

„Ég var 17 ára þegar ég stóð í þeim sporum sem margir Grindvíkingar hafa staðið í núna og horfði upp á húsin brenna, húsin fara undir hraun, hús foreldra minna, og hvernig heilsu móður minnar hrakaði ár frá ári, áratugum saman þangað til ekki varð neitt við ráðið. Þetta klingir í höfði mínu núna þegar þessi stund er runnin upp og Grindvíkingar eru að berjast við það sama: Við verðum að bjarga þeim sem berjast við sálarkreppu, sem missa hús sín og heimili, missa allt sitt öryggi. Öryggið er heimilið, jafnvel þótt maður þurfi að flýja heimilið um stundarsakir þá sækjum við öryggið þangað. Það er alveg ótrúlegt fyrir ungar konur að þurfa að yfirgefa heimili sitt með börn og buru og eiga kannski ekki afturkvæmt þangað. Það reynir á og það er alveg gríðarlega mikilvægt fyrir okkur í þinginu að grípa alla sem við getum.

Þess vegna var það að við í velferðarnefnd óskuðum eftir því strax fyrir jólin að við hefðum forgöngu í þessu máli, værum á undan og óskuðum eftir samstarfi við félagsmálayfirvöld á Suðurnesjum og á Reykjanesi, við Rauða krossinn og þá sérfræðinga sem hafa verið að aðstoða Grindvíkinga, okkar besta fólk, um að koma á fund nefndarinnar og ræða þessi mál og fara yfir þau með okkur í nefndinni, þar sem líka er algjör samstaða í öllum þessum málum. Það er mjög gefandi fyrir okkur öll og ég þakka fyrir það hér á þessari stundu. Það er gott fyrir Grindvíkinga og okkur öll að vita að það ríkir algjör samstaða.

Ég er búinn að vera tíu ár í velferðarnefnd og ég hef aldrei átt erfiðari fund. Það er svo rosalegt að vera að fjalla um málefni dagsins í dag og sjá ekki fram úr þeim, hvað komi upp úr hattinum þegar verður búið að skoða stöðu fólksins. Það er svo mikilvægt að við grípum hvern einasta mann sem er að fyllast af myrkri í hjarta sínu. Það kostar kannski einhverja peninga en það kostar allan peninginn ef við náum ekki að grípa þá, þá fyrst fer það að kosta. Það mun kosta samfélagið, það mun kosta okkur öll, það kostar líf þessa fólks sem er svo mikilvægt, fólkið í Grindavík sem hefur fengið allt þetta hrós hér í dag og á það svo mikið skilið. Það á ekkert annað skilið frá okkur en að við hjálpum því fyrr. Ég þakka líka fyrir Stinningskalda sem mætir á hvern körfuboltaleik hjá Grindvíkingum og hvetur sitt lið til dáða. Það sýnir líka mikla reisn í samfélaginu sem gefst aldrei upp. Áfram Grindavík,“ sagði hann að lokum og margir þingmenn tóku undir og sögðu: „Heyr, heyr!“.