Akademískt frelsi hvað? Dr. Jordan B. Peterson úthýst úr Cambridge

Cambridge-háskólinn í Bretlandi hefur fallið frá ákvörðun sinni um að bjóða Íslandsvininum, Dr. Jordan B. Peterson, sjálfskipuðum „prófessor gegn pólitískri rétthugsun,“ eftir andmæli kennara og nemenda gegn komu hans.

Frá þessu greinir breski fréttamiðillinn The Guardian

Dr. Peterson, er sálfræðiprófessor frá Toronto, sem eins og margir muna heimsótti Ísland í fyrravor, þar sem hann hélt tvo fyrirlestra fyrir fullu húsi í Hörpu. Hann hefur valdið deilum vegna skoðana sinna og tilkynnti á mánudaginn á YouTube-rás sinni að hann yrði í Cambridge í tvo mánuði. 

„Í október fer ég til Cambridge í Bretlandi í tvo mánuði og mun heimsækja kollega við guðfræðideildina, og það ætti að gefa mér tækifæri til að tala við sérfræðinga í trúmálum af öllum gerðum í nokkra mánuði, sem og nemendur,“ sagði hann.

„Það er spennandi fyrir mann sem er fræðilega þenkjandi… að vera boðið þangað, að fá að sitja og taka þátt í nokkra mánuði.“

Háskólinn í Cambridge hefur gefið út að Dr. Peterson hafi óskað eftir að fá að vera heimsóknarkennari og það hafi upphaflega verið samþykkt, en eftir frekari skoðun ákvað skólinn að draga boðið til baka.

Þarf að hlíta meginreglum skólans

„[Cambridge] er opið umhverfi og við væntum þess af öllu starfsfólki okkar og gestum að viðhalda meginreglum skólans. Það er enginn staður hér fyrir neinn sem getur það ekki,“ sagði talsmaður háskólans.

Sjálfshjálparbók Dr. Peterson, Lífsreglurnar 12: Mótefni við glundroða, (e. 12 Rules for Life: An Antidote to Chaos) sem Almenna bókafélagið hefur gefið út í íslenskri þýðingu, sló sölumet í Bretlandi, Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu, Þýskalandi og Frakklandi, og á meira en milljón fylgjendur á twitter.

Í september árið 2016 lýsti hann áhyggjum á YouTube-rás sinni af þróun lagabreytinga í þá átt að bæta kynupplifun og -tjáningu í kanadísk mannréttindalög. Þær hefðu t.d. gert það ólöglegt að ráða ekki fólk í vinnu eða mismuna því á grundvelli þess kyns sem það upplifir sig eða sýnist vera.

Dr. Peterson hélt því fram að lögin væru brot á tjáningarfrelsinu og sagði að hann myndi neita að nota önnur fornöfn en hann eða hún um fólk. Þessar skoðanir hans urðu uppspretta mótmæla við í Háskólann í Toronto.
Hann skoraði einnig á áætlun háskólans um skyldu í þjálfun gegn mismunun og hefur sett sig eindregið á móti Marxisma, mannréttindasamtökum, mannauðsdeildum og „neðanjarðarhreyfingum með róttækar vinstri sinnaðar pólitískar hvatir“ sem hafa reynt að þvinga hann til að nota kynlaust fornafn.

Kennarar við Cambridge höfðu látið í sér heyra vegna ákvörðunar háskólans, og Dr. Priyamvada Gopal deildi skoðun sinni gegn ákvörðuninni áður en boðið var dregið til baka.

Í yfirlýsingu sagði nemendafélag háskólans: „Við erum fegin að boð Dr. Peterson um að heimsækja guðfræðideildina hefur verið dregið til baka eftir nánari athugun. Það er pólitísk ákvörðun að bendla háskólann við Dr. Peterson og gefa honum þannig vægi.“

„Verk hans og skoðanir eru ekki lýsandi fyrir nemendur og sem slíkir sjáum við ekki að heimsókn hans hafi einhverju mikilvægu við skólann að bæta, heldur vegi þær gegn grunngildum hans.“