Ákall Íslendings í Bergamo: „Í guðanna bænum takið veiruna alvarlega“

Rut Valgarðsdóttir sem býr í borginni Bergamo á Ítalíu hefur sett fram átakanlega lýsingu á ástandinni í borginni í færslu á fésbókinni um leið og hún biður Íslendinga að taka alvarlega þann mikla vágest sem Kórónaveiran Covid-19 er.

Hún skrifar:

„Í augnablikinu er bærinn best þekktur fyrir háa tíðni af sýktum með kórónavírusinn, þá hæstu í Evrópu. En númerin sem birtast opinberlega um sýkta og látna segja ekki allt.

Heilbrigðiskerfið er þegar svo mettað hér hjá okkur að eingöngu þeir sem eru verulega alvarlega veikir eru testaðir fyrir veirunni. Jafnvel margir þeirra sem eru verulega alvarlega veikir þurfa að berjast fyrir læknishjálp, sumir deyja heima án þess að vera nokkurntíman testaðir því þeir ná ekki í gegnum filtrana sem eru settir til að forgangsraða hjálpina og aðrir kjósa að fara ekki á sjúkrahús því fólk sér það sem „one way ticket“ og deyja því í súrefnisnauð heima hjá sér.

Það þekkja allir hér einhvern sem hefur misst einhvern eða sem er á gjörgæslu, það eru allir hræddir. Sjúkrahúsið í Bergamo er í stöðugum breytingum, almennum deildum hefur verið breytt í bráðadeildir, dagdeildum hefur verið lokað, sjúkrahúsið hefur ráðið aukastarfsfólk og herinn hefur lagt til lækna og hjúkrunafólk til að manna vaktirnar sem verða lengri og dramatískari eftir því sem á líður.

Talsvert af starfsfólkinu hefur veikst sjálft. Sjukrahúsið er fullmettað af alvarlega veiku fólki sem þarf súrefni, sem er í einangrun, sem deyr án þess að hafa sína nánustu hjá sér. Jarðafarir eru óhugsandi, kistur hrannast upp og aðstandendur standa hjá lamaðir af sorg samblandaða við hræðsluna að smitast.

Einu hljóðin sem við heyrum hér í einangruninni heima hjá okkur eru stöðug væl í sírenum sjúkrabílanna, dag og nótt, og við reynum að hugsa ekki um fólkið og söguna á bakvið hvern sjúkrabíl sem brunar hjá.

Líklega brugðumst við of seint við… við vorum of lengi að átta okkur á því að veiran var hérna á meðal okkar — kannski var hún búin að vera enn lengur að dreifa sér hljóðlaust um héraðið en okkur grunaði, sumir telja jafnvel að erfið lungnabólgutilfelli sem komu upp í lok 2019 gætu hafa verið fyrstu kórónavírustilfellin.“

Og Rut endar færslu sína á því að segja: „Í guðanna bænum takið veiruna alvarlega.“