Ítalskir læknar hafa varað kollega sinna annars staðar í Evrópu við útbreiðslu Kórónaveirunnar og biðja þá að gera sig klára fyrir það sem framundan er.
Í bréfi sem breska dagblaðið Independent hefur undir höndum, segir að allt að 10% þeirra sem greinast með smit þurfi bráðaþjónustu á sjúkrahúsi og slíkt geti skapað allt of mikið álag á heilbrigðiskerfið.
Ótrúleg sprenging í Kórónaveirusmitum hefur orðið á Ítalíu síðustu daga og einnig dauðsföllum. Óttast sérfræðingar að tölfræðilega séu mörg önnur lönd Evrópu aðeins nokkrum dögum á eftir Ítalíu í útbreiðslu veirunnar.
Minnisblað sem þrír ítalskir læknaprófessorar sendu evrópskum kollegum sínum segir frá því hversu erfitt er að meðhöndla mjög veikt fólk með Kórónaveiruna.
Mjög hátt hlutfall (einn af hverjum tíu) þurfi á bráðaþjónustu að halda og ekkert bendi til þess að sama verði ekki uppi á teningnum annars staðar.
„Við viljum því koma á framfæri sterkum skilaboðum: Gerið ykkur klár!,“ segir þar ennfremur.
Ítölsk sjúkrahús hafa þurft að sinna mjög mörgum sjúklingum með lungnavanda og þurfa á öndunarvél að halda. Segja læknarnir að öllu skipti að tækjabúnaður sé nægur og starfsfólk þjálfað í að beita honum.