Ákall Ögmundar: Ætlunin að svæfa fólk þar til allt er um garð gengið

Ögmundur Jónasson fv. ráðherra og fv. þingmaður Vinstri grænna.

„Þetta mál kallar á vöku og vakandi fólk, ekki sofandahátt. Þessi fundur er tilraun – vonandi ein af mjög mörgum – til að vekja þá sem sofa,“ segir Ögmundur Jónasson, fv. ráðherra, sem stendur fyrir opnum fundi í Safnahúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík klukkan 12 á hádegi á laugardag, þar sem ætlunin er að ræða orkupakka þrjú.

„Ég er sannfærður um að kynni menn sér þessi mál vel snúast þeir á þá sveif að hafna nýjasta raforkupakkanum frá Brüssel. Þetta á við um flesta tel ég, undantekningarnar frá þeirri reglu eru þeir aðilar sem ætla sér að maka krókinn á markaðsvæðingu orkunnar. Þeir vita að þarna er mikla fjármuni að hafa. Þeir mega ekki til þess hugsa að almenningur vakni og hvetji fulltrúa á Alþingi að standa vörð um almannahag. Þess vegna heyrum við nú ýmsa syngja vögguvísur. Þær eru ætlaðar til að svæfa fólk þar til allt er um garð gengið,” bætir hann við í samtali við Viljann.

Hann segir að meginspurning fundarins sé hvort við séum að missa yfirráð yfir orkunni okkar og hvort 3. orkupakkinn sé enn ein varðan á þeirri vegferð.

„Frummælendur hafa rýnt í þessar spurningar frá mismunandi sjónarhólum en eiga það sameiginlegt að búa yfir þekkingu á málefninu,“ segir Ögmundur ennfremur, en frummælendur eru Bjarni Jónsson, rafmagnsverkfræðingur, fyrrverandi rafmagnsstjóri ISAL, Birgir Örn Steingrímsson, hag- og fjármálafræðingur, Elías B. Elíasson, verkfræðingur, Erlendur Borgþórsson, framkvæmdastjóri, Frosti Sigurjónsson, rekstrarhagfræðingur og fv. alþingismaður og Ingibjörg Sverrisdóttir, ferðaráðgjafi. 

Ögmundur verður sjálfur fundarstjóri og hann segir að allir séu velkomnir, enda standi til að mæla fyrir innleiðingu orkupakkans á þingi í næstu viku og því ekki seinna vænna að kynna sér málið.