Ákvörðun bankaráðsins óskiljanleg og óþolandi segja ráðherrar

Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans og Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs bankans.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra gagnrýnir ákvörðun bankaráðs Landsbankans um að hækka laun Lilju Bjarkar Einarsdóttur, bankastjóra bankans um 82% frá 2017. Þetta sé óskiljanleg ákvörðun hjá stjórn bankans sem hafi fengið tilmæli um að gæta hófs í starfskjarastefnu sinni.

Fréttablaðið skýrði frá því um helgina, að bankaráð Landsbankans hafi hækkað mánaðarlaun Lilju Bjarkar um 17 prósent í fyrra eða sem nemur 550 þúsund krónum. Hækkuðu mánaðarlaunin úr 3.250.000 krónum í 3.800.000 krónur þann 1. apríl 2018. Hækkunin kom innan við ári frá annarri launahækkun bankastjórans sem fékk hækkun upp á tæpar 1,2 milljónir á mánuði 1. júlí 2017. Þá hafði ákvörðunarvald launa bankastjórans verið fært frá kjararáði til bankaráðs Landsbankans.

Frá 1. júlí 2017 til 1. apríl 2018 hafa laun bankastjóra Landsbankans hækkað úr 2.089 þúsund krónum í 3.800 þúsund krónur. Það gerir hækkun um rúmar 1,7 milljónir á mánuði, eða tæp 82 prósent á þessu tíu mánaða tímabili. Um er að ræða laun og bifreiðahlunnindi, sagði ennfremur í frétt blaðsins.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Þetta kom fram í svari bankans við fyrirspurn Fréttablaðsins þar sem óskað var eftir sundurliðun á launaupplýsingum bankastjórans eins og þær birtast í nýbirtum ársreikningi bankans.

Úr takti við alla almenna launaþróun

„Mér finnst þetta óskiljanleg ákvörðun hjá stjórn Landsbankans sem fékk tilmæli árið 2017 frá þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra um að gæta hófs í sinni starfskjarastefnu,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra í viðtali við hádegisfréttir RÚV.

„Hér sjáum við 82% hækkun á launum þessa bankastjóra ríkisbankans frá árinu 2017. Sem er auðvitað úr takti við alla almenna launaþróun í samfélaginu. Langt umfram til dæmis umdeildar kjararáðshækkanir sem stjórnvöld hafa nú brugðist við.

Ásmundur Einar Daðason, félags og barnamálaráðherra.

Óþolandi hækkanir, segir félagsmálaráðherra

Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, gagnrýnir ákvörðun bankaráðs Landsbankans harðlega á fésbók í dag:

„Þessar eilífu hækkanir forstjóra ríkisfyrirtækja eru óþolandi. Ríkisbankinn fremstur í flokki að hækka laun á sama tíma og aðrir eru varaðir við vegna kjarasamninga. Bankasýsla ríkisins og bankaráð Landsbankans verða að sýna það í verki að þeim sé treystandi til að stýra fyrirtækjum í almannaeign. Ef ekki þá verða stjórnvöld að grípa inní með lagabreytingum. Í hreinskilni sagt þá fer þolinmæði mín þverrandi gagnvart þessu rugli,“ segir hann.