Ákvörðun um afléttingu ferðatakmarkana bíður tillagna sóttvarnalæknis

Starfshópurinn kynnti skýrslu sína fyrir ráðherrum og sóttvarnalækni í gær.

Verkefnisstjórn sem heilbrigðisráðherra skipaði til að undirbúa framkvæmd vegna sýnatöku og greiningar á COVID-19 meðal farþega sem koma til landsins, líkt og stjórnvöld áforma, skilaði skýrslu með niðurstöðum sínum í gær.

Niðurstaða hópsins er sú að miðað við gefnar forsendur sem lagðar voru til grundvallar sé verkefnið framkvæmanlegt en að leysa þurfi úr mörgum verkþáttum áður en hægt verður að hefjast handa við skimun á landamærum. Skýrslan var kynnt á fundi ríkisstjórnar í morgun. Athygli vekur, að ákveðið var að forsætisráðuneytið muni leiða næstu skref.

Í skipunarbréfi hópsins var verkefni hans skýrt afmarkað og ákveðnar forsendur lagðar til grundvallar, til að mynda varðandi afkastagetu veirufræðideildar vegna sýnatöku og greiningar, greiningartíma, kostnað o.fl.

Hildur Helgadóttir formaður starfshópsins.

Ákvörðun um afléttingu ferðatakmarkana liggur ekki fyrir  og verður ekki tekin fyrr en tillögur sóttvarnalæknis til ráðherra þar að lútandi liggja fyrir. Á upplýsingafundi Almannavarna hefur Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagt að hann muni skila þeim tillögum á næstu dögum og hafa sóttvarnasjónarmið þar einkum í fyrirrúmi.

Heilbrigðisráðuneytið óskaði eftir áhættumati Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri vegna fyrirhugaðra tilslakana á ferðatakmörkunum og eru þau gögn meðfylgjandi: