Ákvörðun um næstu sóttvarnaraðgerðir þarf að marka skýra leið fram á við

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.

Ákvörðun um næstu sóttvarnaraðgerðir þarf að marka skýra leið fram á við. Atvinnulífið og almenningur geta ekki búið við reglulega óvissu um eðli og umfang takmarkana. Samtök atvinnulífsins kalla eftir að stjórnvöld nýti reynsluna af baráttunni við veiruna og búi til skýran ramma um þær aðgerðir sem gripið verður til á næstu mánuðum. 

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Halldóri Benjamín Þorbergssyni, framkvæmdastjóra SA, en núgildandi sóttvarnaráðstafanir gilda út morgundaginn, 1. desember. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur skilað heilbrigðisráðherra nýju minnisblaði, en hefur sagt í fjölmiðlum að aukning smita undanfarna daga, gefi ekki mikið tilefni til tilslakana.

Samtök atvinnulífsins segja náið samstarf stofnana hafa gefið góða raun og dýrmæt reynsla myndast um stefnumörkun í heimsfaraldri. Nýta þurfi þá reynslu til að tryggja að næstu aðgerðir uppfylli eftirtalin markmið:

  • Í þeim felist skýr og tímasett langtímaáætlun um afléttingu takmarkana.
  • Sett séu fram töluleg viðmið þar sem frekari hömlur eða liðkanir eru tengdar við nýgengi smita.
  • Sóttvarnarráðstafanir séu innbyrðis samkvæmar, skiljanlegar almenningi og að höfðað sé til ábyrgðar hvers og eins um að verja sig og aðra.

„Núverandi ástand kallar ekki á lömun samfélagsins eða viðvarandi krísuástand. Okkur hefur auðnast að ná tökum á útbreiðslu smita með samstilltu átaki. Áfram þarf að leggja áherslu á persónulegar sóttvarnir sem undirstöðu í baráttu gegn veirunni.

Það eru ekki aðeins fyrirtæki og vinnustaðir sem eiga afar erfitt með áframhaldandi óvissu. Almenningur horfir á jólin nálgast og nýtt ár sem því miður mun markast af miklu atvinnuleysi og fjárhagslegum erfiðleikum á mörgum heimilum.

Kynna þarf auðskiljanlega áætlun um rýmkun takmarkana sem jafnframt gefur fyrirheit um frekari tilslakanir ef smitstuðlar haldast innan skilgreindra marka. Ef smitum fjölgar á ný þá er fyrst gripið til ákveðinna fyrirfram kynntra ráðstafana og svo hert á ef þörf krefur.

Persónulegar sóttvarnir verða áfram undirstaða í baráttu gegn veirunni og þjóðin hefur á þessu ári lært að beita þeim. Ekki virðist sjálfgefið að rýmkanir á takmörkunum, á sama tíma og almenningur er áfram hvattur til ábyrgrar hegðunar, komi til með að valda sprengingu í nýjum tilfellum.

Óvissa um aðgerðir sem sífellt geta breyst hefur sett skólahald, starfsemi fyrirtækja og öll áform í samfélaginu í uppnám. Tími er kominn til að draga markvisst úr þessari langvarandi óvissu og setja fram skýra áætlun um aðgerðir til loka faraldursins. Við vitum að smit munu halda áfram að greinast, í mismiklum mæli, þar til að bólusetningar hafa beygt niður faraldurinn. Mikilvægt er að næstu sóttvarnaraðgerðir séu fyrirsjáanlegar og njóti breiðs stuðnings í samfélaginu,“ segir ennfremur í yfirlýsingu Halldórs Benjamíns.