Kristján Freyr Halldórsson, framkvæmdastjóri tónlistarhátíðarnnar Aldrei fór ég suður, segir að hátíðin nú, sú 16. í röðinni, hafi slegið öll fyrri met hvað aðsókn varðar. Mörg þúsund manns sóttu hátíðina bæði kvöldin og var þó fjöldinn meiri á föstudagskvöldinu. Fróðir menn sem Bæjarins besta ræddi við á laugardagskvöldið áætluðu að á föstudagskvöldinu hefðu verið um 8000 manns á svæðinu og þar af milli 2000 og 3000 inni í skemmunni þegar mest var.
Alls voru 14 tónlistaratriði flutt og Kristján Freyr segir að allir fái greitt fyrir sinn flutning, þótt greiðslum sé raunar stillt í hóf og það sem athyglisvert er að hver og einn fær sömu fjárhæð. Hátíðin ber kostnað af gistingu og ferðakostnaði flytjenda og sagði Kristján Freyr að Menntaskólinn á Ísafirði og Hótel Ísafjörður gerðu þetta mögulegt með sínu framlagi, „án þeirra væri þetta ekki mögulegt“ sagði Kristján Freyr.
Íþróttafélögin á svæðinu sjá um gæslu og fá greitt fyrir sem gengur svo til starfsemi þeirra. Margir aðrir koma að þessu eins og rækjuverksmiðjan Kampi sem leggur til húsnæðið og margir tugir sjálfboðaliða. „Það er gríðarlegur stuðningur í samfélaginu við hátíðina og margir sem leggja okkur lið og halda hátíðinni gangandi og þetta er allt gert af góðum hug og ekki í hagnaðarskyni.“
Tekna var aflað með sölu á veitingum og varningi tengdum hátíðinni.
„Ég vil þakka bæjarbúum fyrir ótrúlegt viðmót. Ég er stoltur af því að tónlistarfólk vilji koma vestur og stoltur af því hvað heimamenn taka vel á móti gestunum“ sagði Kristján Freyr Halldórsson að lokum.