Sprengingin undanfarna daga í útbreiðslu Kórónaveirunnar um heim allan hefur leitt til algjörs hruns á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Ekki síðan 2008 hafa hlutabréf hrapað jafn skjótt í verði og eins og jafnan við slíkar aðstæður leita fjárfestar nú í örugg ríkisskuldabréf og gamla góða gullið.
Sérfræðingar segja að nánast sé hægt að afskrifa ferðamannasumarið 2020 í heiminum, fjölmargir þori varla út fyrir hússins dyr í eigin heimalandi, hvað þá að ferðast til útlanda. Nú síðast í dag tilkynnti leikjafyrirtækið CCP að árleg ráðstefna í Hörpu hefði verið blásin af, en hana sækja að jafnaði 1000-1500 manns, flestir frá útlöndum. Það munar um minna.
Erlendir fjölmiðlar hafa í dag skýrt frá því að Kórónaveiran sé komin til Íslands og má búast við enn frekari afbókunum í kjölfarið.
Kórónaveiran hefur á undraskömmum tíma leitt til mestu leiðréttingar á verði hlutabréfa síðan í kreppunni miklu þegar hrunið mikla varð 1933. Wall Street hefur séð vísitölur fara fimm ár aftur í tímann á innan við viku og meira en fimm trilljarðar bandaríkjadala fóru í vaskinn.
Gærdagurinn var sá versti nokkru sinni og féll Dow Jones vísitalan um 1.190 punkta.
FTSE 100 vísitalan var litlu skárri, féll um 823 punkta á einni viku. Alþjóðleg flugfélög hafa hrapað í verði í orðsins fyllstu merkingu, enda ekki útlit fyrir góðæri í þeim bransa á næstunni.
Sérfræðingar óttast að vandræðin séu rétt að byrja. Bretar ræða í alvöru að loka skólum og banna meiriháttar mannamót og viðburði í tvo mánuði til að reyna að hefta úrbreiðslu veirunnar og efnahagur landa á borð við Ítalíu var bágborinn fyrir, en gæti farið endanlega fyrir björg með vandræðunum nú. Ekki síst þar sem Ítalía er auk Kína orðið að andliti veirunnar á heimsvísu.