Algjört hrun birtist í fjölda gistinátta í apríl

Gistinætur á hótelum í apríl voru 7.900 samkvæmt bráðabirgðatölum samanborið við 372.600 gistinætur í apríl 2019. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar. Rúmanýting var um 1,8% samanborið við 41,6% í sama mánuði í fyrra.

Þar segir að augljóst sé að miklar sviptingar hafi átt sér stað í hótelgeiranum og af 167 hótelum sem skráð eru hjá Hagstofunni hafa 69 tilkynnt lokun fyrir apríl.

Sjá nánar: Fyrsta mat á rúmanýtingu og fjölda gistinátta á hótelum í apríl

Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gerir þessar tölur að umtalsefni á fésbókinni og birtir myndina hér að ofan, sem sýnir stöðuna í sögulegu samhengi.

Varla er hægt að undirstrika betur, hverslags hrun hefur orðið í þessari atvinnugrein hér á landi.

„Hér er staðan frá aldamótum og þá getum við séð hversu ótrúlegur þessi skellur er. Gistinæturnar núna í apríl eru 2,8% af því sem þær voru 2019.

Undanfarin ár hafa gjaldeyristekjur af ferðaþjónustunni verið um 35-40% af gjaldeyristekjum Íslendinga eða um 500 milljarðar. Rétt að benda á að flugreksturinn er inni í þessari tölu (ca. 30-35% af gjaldeyristekjunum).

Það má reikna með að tap samfélagsins núna í nýliðnum apríl sé á milli 20 og 30 milljarðar,“ segir þingmaðurinn.