„Það er ákveðin angist sem sprettur fram af hálfu stjórnarflokkanna, sérstaklega greinilega Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, þegar Miðflokknum dettur eitthvað í hug“, var á meðal þess sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður og formaður Viðreisnar, sagði í ræðu á Alþingi í dag.
Til umræðu var frumvarp breytingar á ýmsum lögum á sviði matvæla.
„Ég vil sérstaklega hrósa Miðflokknum, fyrir það hvernig hann hefur haldið á sínum málflutningi, ég er reyndar ósammála þeirri nálgun. En það er augljóst að það er algjört undanhald af hálfu stjórnarflokkanna, þegar kemur að landbúnaðarmálum, og þegar stjórnarflokkarnir átta sig á því að Miðflokkurinn er bókstaflega á móti málinu, vilja ekki sameiningu Framleiðslusjóðs og Aukið virði sjávarfangs, AVS-sjóðsins, að þá bara hverfa ríkisstjórnarflokkarnir frá annars ágætri fyrirætlan.“
Þrengri reglur og minna frelsi en í Evrópusambandinu
Til stóð að sameina sjóði og einfalda regluverk í landbúnaði, og kvaðst Þorgerður Katrín hlynnt því. Hún vildi einnig að skoðað yrði að einfalda flókið eftirlit sem er ýmist á höndum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna, Matvælastofnunar eða Umhverfisstofnunar. Hún vildi að hlutverk milliliða eins og afurðastöðva yrði skoðað, en einnig rýmka reglur til heimaslátrunar, og framleiðslu og sölu á áfengi og öðrum afurðum beint af býli.
Þorgerður Katrín benti á að úti í Evrópusambandinu séu reglur rýmri og meira frelsi hjá bændum í þessum efnum, en hérlendis sé það síður þannig, þrátt fyrir að við hefðum vald til að ráðstafa landbúnaðarmálum að vild.