Allir bæjarfulltrúar í Skagafirði leggjast gegn orkupakka þrjú

Vesturós Héraðsvatna.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar áréttar í umsögn til Alþingis vegna þriðja orkupakkans, að orkuauðlindin er ein af mikilvægustu forsendum velmegunar í landinu.

„Mikilvægi þess að allar ákvarðanir í orkumálum verði í höndum Íslendinga er því ótvírætt. Skal í því sambandi minnt á að stjórnarskrá Íslands leyfir ekki framsal ríkisvalds til erlendra stofnana.

Aðstæður Íslands í orkumálum eru gjörólíkar þeim sem liggja til grundvallar orkulöggjöf ESB og því er óskynsamlegt að innleiða það regluverk hér.

Ísland hefur í dag enga tengingu við orkumarkað ESB og telur sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar slíka tengingu ekki þjóna hagsmunum landsmanna.

Sveitarstjórn telur því rétt að Alþingi og ríkisstjórn skuli leita eftir undanþágu frá innleiðingu þriðja orkupakkans,“ segir í umsögn sem borin var upp til afgreiðslu á fundi sveitarstjórnar í gær og samþykkt með níu atkvæðum allra viðstaddra bæjarfulltrúa, jafnt úr meiri og minnihluta.

Í sveitarstjórn Skagafjarðar eru ríkisstjórnarflokkarnir allir með fulltrúa, flokkarnir sem skipa hana eru úr Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki, Byggðalistanum og VG og óháðum.