Allir sem koma til Ísraels settir í tveggja vikna sóttkví

Allir sem koma til Ísraels verða settir í tveggja vikna sóttkví í því skyni að hamla útbreiðslu Kórónaveirunnar, að því er Benjamin Netanyahu forsætisráðherra tilkynnti í kvöld.

Innanríkisráðherrann segir að tilskipunin taki þegar gildi gagnvart Ísraelum sem koma til landsins og frá og með fimmtudeginum eigi þetta líka við um erlenda ríkisborgara sem koma inn í landið.

Allir verða að sýna fram á gistiaðstöðu meðan á dvölinni stendur, þar sem unnt er að vera í sjálfskipaðri einangrun.

Netanyahu viðurkenndi að þetta væri niðurstaðan eftir miklar umræður. Efnahagsleg áhrif væru mikil, en brýnast væri að gæta að hagsmunum almennings og heilbrigði þjóðarinnar.

Ákveðið hefur verið að tilskipunin gildi næstu tvær vikur hið minnsta.

42 staðfest tilfelli Kórónaveirunnar hafa greinst í Ísrael, en til samanburðar eru komin 65 tilfelli hér á landi. Enginn hefur látist af völdum veirunnar þar í landi.