Farsóttanefnd Landspítalans hefur ákveðið að skima alla sjúklinga sem flytjast frá Landspítala á aðrar stofnanir. Þar er meðtalið Grensásdeild, Kleppur og Vífilsstaðir.
Þetta kemur fram í gögnum nefndarinnar. Að svo stöddu er ekki nauðsynlegt að skima sjúklinga sem flytjast milli Fossvogs og Hringbrautar.
Hópsýking COVID-19 sem kom upp á Landakoti hefur breiðst út á Reykjalundi og hjúkrunarheimilinu á Eyrarbakka vegna flutnings sjúklinga þangað af Landakoti.
Sjúklingar sem koma til meðferðar frá öðrum stofnunum og fara þangað aftur skal skima fyrir brottför. Ekki er nauðsynlegt að einangra sjúklinga á meðan beðið er eftir niðurstöðu þar sem hér er um að ræða skimun einkennalausra.
Eftir sem áður gildir það verklag að ef tekið er sýni vegna einkenna skal einangra sjúkling þar til niðurstaða liggur fyrir.Þetta gildir þar til annað er ákveðið, segir í ákvörðun farsóttanefndar.