Bóluefnið sem kom til landsins frá Pfizer í dag og Moderna í síðustu viku fer allt í fyrsta skammt bólusetningar hjá alls 4.200 manns, að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis.
Viljinn spurði sóttvarnalækni út í bólusetningar á upplýsingafundi almannavarna í dag, en fregnir hafa borist af því að undanfarna daga að sóttvarnayfirvöld margra ríkja, nú síðast Danmerkur, hafa ákveðið að nota takmarkaðar byrgðir af bóluefnum til að gefa sem flestum fyrsta skammt í stað þess að geyma helminginn fyrir seinni skammt.
Þórólfur vísaði til þess að fyrsta sendingin frá Pfizer sem kom til landsins fyrir áramót hafi verið 10 þúsund skammtar. Þá hafi verið ákveðið að bólusetja 5.000 manns og geyma seinni skammtinn. Nú sé komið að seinni bólusetningunni hjá þessum hóp, en nú sé útlit fyrir að aðföng verði betri á næstunni og þess vegna hafi verið ákveðið að fara að dæmi annarra landa og bólusetja sem flesta strax.
Ráðlagt hefur verið að láta að minnsta kosti þrjár vikur líða milli fyrri og seinni bólusetningar, en sérfræðingar hafa talið að allt að þrír mánuðir megi líða á milli. Fyrri skammturinn gefi þegar einhverja vernd, en þó ekki jafn mikla og þegar báðir skammtar hafa verið gefnir. Þar sem bóluefni sé nú af mjög skornum skammti og veiran í mikilli útbreiðslu sé mikilsvert að gefa sem flestum a.m.k. fyrsta skammtinn í þeirri viðleitni að vernda þá fyrir mögulegu smiti.