Allt gert til að bjarga Kynnisferðum frá gjaldþroti

Kynnisferðir hafa sagt upp öllum starfsmönnum Ferðaskrifstofu Kynnisferða og Bílaleigu Kynnisferða. Einnig verður tæplega 70 starfsmönnum sagt upp hjá Hópbifreiðum Kynnisferða og Almenningsvögnum Kynnisferða en ráðist verður í endurskipulagningu á rekstri félagsins í maí. Um er að ræða um 150 starfsmenn en hjá félaginu starfa 320 starfsmenn í fullu starfi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Þar segir að hratt hafi fjarað undan ferðaþjónustu á heimsvísu, nánast allt farþegaflug milli landa liggi niðri og óvíst hvenær ferðalög milli landa hefjast aftur.

Staðan núna sé sú að engir ferðamenn eru á Íslandi. Til að bregðast við þessari breyttu stöðu hafi verið gripið til ýmissa aðgerða og leitað allra leiða til að lækka kostnað félagsins.

„Við höfum með þátttöku okkar frábæra starfsfólks getað nýtt okkur hlutabótaleiðina því við öll vorum að vonast til ástandið væri tímabundið og í sumar gæti starfsemi hafist á ný“ segir Björn Ragnarsson framkvæmdastjóri Kynnisferða.

Til að bjarga rekstri félagsins er því nauðsynlegt að grípa til þessara aðgerða núna. „Við viljum hins vegar gera allt sem við getum til að bjarga Kynnisferðum frá gjaldþroti og aðlaga starfsemi félagsins að þeim veruleika sem nú blasir við“, segir Björn. Ferðaþjónustuhlutinn leggst nú í hálfgerðan dvala til að hægt verði að hefja starfsemi að nýju þegar fyrirsjáanlegt er að ferðaþjónusta á Íslandi komist aftur í gang. „Við ætlum okkur að vera tilbúin að sækja fram þegar tækifæri gefst á ný. Við munum bjóða nokkrum starfsmönnum endurráðningu til að geta haldið rekstri félagsins í lágmarki“ segir Björn.

„Það er erfitt að lýsa því hversu sorglegt það er að þurfa að grípa til slíkra aðgerða en hugur stjórnar og stjórnenda er fyrst og fremst hjá okkar frábæra fólki sem nú sér fram á að missa vinnuna. Við vonumst svo sannarlega til þess að geta boðið stærstum hluta starfsmanna vinnu aftur um leið og aðstæður batna“ segir Björn að lokum.