Almenni vinnumarkaðurinn verður að leiða kjaraþróun í landinu

Dr. Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins.

„Oft hefur verið tekist á við gerð samninga um kaup og kjör almennings í landinu, eins og eðlilegt er því undir eru mikilvægir hagsmunir, hagur fólks og afkoma fyrirtækjanna. Um nokkurra ára skeið hefur verið samhljómur í stjórn SA og á meðal stjórnenda í atvinnulífinu um að stefna samtakanna byggi á að saman fari góð afkoma í atvinnulífinu og hagsæld almennings.  Heildarsamtök atvinnulífsins hljóta að þróast með samfélaginu, það hafa Samtök atvinnulifsins sannarlega gert. Ólík sjónarmið, heilbrigt samtal og gagnkvæmur skilningur leiða af sér niðurstöðu þar sem enginn einn fær ráðið né nær öllu sínu fram. Um málamiðlun þarf að skapast sátt allra aðila og sannfæring fyrir því að innistæða fyrir nýjum samningum sé til staðar.“

Þetta er meðal þess sem formaður Samtaka atvinnulífsins, dr. Eyjólfur Árni Rafnsson, sagði er hann ávarpaði Ársfund atvinnulífsins sem fram fór í gær í Eldborg í Hörpu.

Eyjólfur Árni sagði ábyrgð samningsaðila við gerð kjarasamninga vera mikla, og þó ekki væri nema vegna þess þá gegni samtök atvinnulífsins og launafólks mikilvægu hlutverki í þjóðfélaginu.

„Samskipti okkar við verkalýðshreyfinguna byggja á gagnkvæmu trausti og virðingu fyrir sjónarmiðum hvers annars. Niðurstöður kjarasamninga ráða miklu um almenna efnahagsþróun og ef ekki er að gætt geta kjarasamningar leitt til verðbólgu, gengisfellinga og óviðunandi afkomu fyrirtækja og þar með verri lífskjara almennings.

Svigrúm til óábyrgra kjarasamninga minna en áður

Allt frá þjóðarsáttinni 1990 hefur almennt tekist betur til í þessum mikilvægu verkefnum en áratugina þar á undan. Svigrúm til óábyrgra kjarasamninga er minna en áður. Launin duga betur en nokkru sinni og almenn velmegun og jöfnuður hefur aldrei verið meiri. Meðal annars gerist þetta vegna þess að síðasta áratug og jafnvel lengur hafa samningsaðilar lagt áherslu á að hækka lægstu laun og tryggja jafnframt að fyrirtækin geti staðið undir hækkunum. Nú síðast tryggir Lífskjarasamningurinn frá síðasta vori áframhaldandi stuðning við þessi markmið allt til loka árs 2022. Hann tekur mið af hagsmunum launafólks og fyrirtækja. Hluti launahækkana næstu ára eru tengdar beint við ganginn í hagkerfinu. Þetta eru tímamót og risastórt skref í rétta átt, að aukin umsvif í þjóðfélaginu leiði beint til hærri launa,“ sagði hann ennfremur.

„Vextir hafa lækkað verulega frá undirritun Lífskjarasamningsins og allar forsendur eru til enn frekari lækkunar. Meginmarkmið samninganna hafa þegar náðst – einungis hálfu ári eftir undirritun. Lægri vextir, stöðugt gengi og lækkun skatta gefa fyrirtækjum svigrúm til aukinnar nýsköpunar, markaðssóknar og fjárfestingar. Samningarnir leggja grunn að stöðugleika í efnahagslífinu, aukinni framleiðni og batnandi lífskjörum almennings.

Eins og samskipti aðila á vinnumarkaði þurfa að byggja á trausti og gagnkvæmum skilningi, þá verða samskiptin við ríki og sveitarfélög að einkennast af sömu áherslum. Samtök á vinnumarkaði veita stjórnvöldum hverju sinni mikilvægt aðhald.

Í nálægum löndum verða ekki stórfenglegar breytingar í efnahagsmálum þótt ríkisstjórnir komi og fari. Þær standa allar frammi fyrir sömu lögmálum hagfræðinnar og hafa ávallt að leiðarljósi að tryggja stöðugleika.

Breið ríkisstjórn var góð niðurstaða

Pólitískur óstöðugleiki birtist hér á landi með þrennum Alþingiskosningum á árunum 2013 til 2017. Slíkt veit ekki á gott og leiðir meðal annars til ófyrirsjáanleika um stefnumótun í efnahagsmálum. Ég tel, að myndun núverandi ríkisstjórnar í kjölfar kosninganna fyrir tæpum tveimur árum, hafi verið góð niðurstaða eftir þá orrahríð sem á undan fór. Lærdómurinn er að hægt er að brúa bil milli skoðana þótt langt virðist á milli. Ekki er hefð fyrir því að hægri og vinstri flokkar starfi saman hér á landi. Enginn vafi er á að vel hefur tekist til um þetta samstarf og víst er að stuðningur ríkisstjórnarinnar við Lífskjarasamninginn skipti miklu máli. Sérstaklega er lækkun tryggingagjalds og lækkun tekjuskatts launafólks mikilvægt framlag,“ bætti hann við.

Formaðurinn sagði mikilvægt að ríki og sveitarfélög átti sig á því að ekki er eðlilegt að auka stöðugt við útgjöld og senda þann reikning á skattgreiðendur. Sama hvort greiðandinn er einstaklingur eða fyrirtæki; aukin skattbyrði dragi úr getu þeirra til sjálfsbjargar og nýsköpunar.

„Prófsteinn á þróun kjaramála á Íslandi til næstu ára er fólginn í niðurstöðu í kjarasamningum hins opinbera sem nú standa yfir. Lífskjarasamningurinn hlýtur að varða leiðina fyrir þessa samninga, annað er óhugsandi. Fyrirtæki á einkamarkaði verða að standast samkeppni við erlenda keppinauta sína. Þau bregðast við með margskonar hagræðingu og fækkun starfsfólks ef samkeppnishæfni atvinnuveganna er ógnað. Hið opinbera býr ekki við sambærilegt aðhald og því verður almenni vinnumarkaðurinn að leiða kjaraþróun í landinu. Ef hlutverkin snúast við, þannig að ríki og sveitarfélög lofi frekari launahækkunum, mun almenni markaðurinn fylgja í kjölfarið, þótt svigrúmið sé ekki fyrir hendi. Afleiðingin yrði fækkun starfsfólks og verðbólga eins og dæmin sanna. Kjör allra versna.

Óhóf er ekki til álitsauka

Fyrir atvinnulífið er sérstaklega ánægjulegt að traust fólks á eigin atvinnurekanda er jafnan með því mesta sem mælist og almennt er traust á íslenskum fyrirtækjum mikið. Traust, samheldni og gagnkvæm virðing skipta verulegu máli fyrir almennan stöðugleika í samfélaginu og þá ekki síst framkoma einstaklinga, stjórnmálamanna og annarra, sem sýnilegastir eru almenningi. Hófsemi og hyggindi eru nauðsynlegar dyggðir sem flestum ætti að vera auðvelt að tileinka sér. Forystumenn fyrirtækja og stofnana verða að gæta þess að kjör þeirra séu í eðlilegu samhengi við það sem gengur og gerist. Óhóf  er ekki til álitsauka í íslensku samfélagi,“ sagði hann ennfremur.