„Mikið líf hefur verið á íslenskum hlutabréfamarkaði á síðustu mánuðum. Verðhækkanir hafa verið miklar og fjölgun viðskipta mikil. Þessa þróun má að hluta til rekja til mikillar aukinnar þátttöku almennings á hlutabréfamarkaði,“ segir í Hagsjá Landsbankans, sem kom út í morgun.
Hagfræðingar Landsbankans telja að þessa ánægjulega þróun megi rekja til ýmissa þátta, t.d. lækkun vaxtastigs og aukins skattafsláttar á fjármagnstekjur.
„Allt frá fjármála- og bankakreppunni 2008 hefur áhugi almennings á hlutabréfum verið mjög lítill en það breyttist á síðasta ári, þegar fjöldi almennra hluthafa í kauphöllinni tæplega tvöfaldaðist milli ára. Mest af þeirri fjölgun má rekja til mikils áhuga almennings á hlutafjárútboði Icelandair í september.
Margir töpuðu miklu á hlutabréfum í hruninu og traust almennings á hlutabréfamarkaðnum beið mikinn hnekk. Svo virðist hins vegar sem traust almennings á hlutabréfamarkaði hafi vaxið verulega á síðasta ári. Fjöldi einstaklinga sem áttu hlutabréf í Kauphöllinni í lok ársins 2019 var tæplega 8.800. Í lok síðasta árs var þessi fjöldi kominn upp í tæplega 17.000 og hafði tæplega tvöfaldast milli ára. Mest af aukningunni má rekja til mikils áhuga á hlutafjárútboði Icelandair Group í september. Þá fjölgaði almennum hluthöfum félagsins úr 4 þúsund upp í 11 þúsund, eða um 7 þúsund manns. Viðskipti hafa líka aukist mikið á markaðnum og hefur það verið rakið til aukinnar þátttöku almennings á hlutabréfamarkaði,“ segja hagfræðingar Landsbankans ennfremur.
Hagsjá: Verulega aukinn áhugi almennings á hlutabréfum (PDF)