Almenningur verður að átta sig á hættunni

Gunnar Andrésson læknir á Landspítalanum.

Eftir Gunnar Andrésson:

Núna erum við með 58 staðfest tilfelli af Covid 19 veirusýkingunni á Íslandi og fjölda af sýnum sem á eftir að rannsaka. Við höfum gripið til mikilla aðgerða og erum með yfir 500 manns í sóttkví og eiga heilbrigðisyfirvöld hrós skilið fyrir góða framistöðu. En það má líka gagnrýna eitt og annað í framgöngu þeirra.

Ég vil ekki skapa hræðsluáróður, en mér finnst mikilvægt að fólk átti sig á að það sé alvarleg sýking að geysa á Íslandi og það er hægt að sporna gegn útbreiðslu hennar með réttum vinnubrögðum.

Ég hef unnið sem deildarlæknir á röntgen- og skurðdeild Landspítalans í rúmlega þrjú ár og var meðal annars þjálfaður á sínum tíma til að fara upp í flugvél til að taka á móti E. bólu sjúklingum. Ég hafði samt ekki miklar áhyggjur af þeim sjúkdómi og mér leið vel í vinnunni, aðallega vegna þess að mig grunaði alltaf að sá sjúkdómur mundi aldrei koma til landsins og ef hann kæmi þá mundi hann ekki breiðast út. Það eru tvær ástæður fyrir því; E. bóla smitast með snertismiti og fólk var nær alltaf með einkenni. Ég fór meðal annars til Malawi til að vinna á heilbrigðisstofnun á sama tíma og sá ég að þau voru með mun betri viðbúnað á flugvellinum við E. bólunni,en við hérna heima á Íslandi þótt að það land hafi landfræðilega ekki verið mikið nær ebólusvæðinu.

En þegar ég frétti af veirunni í Kína hafði ég miklar áhyggjur og það eru nokkrar ástæður fyrir því. Þessi veira getur smitast bæði sem öndunarsmit og sem snertismit. Það sem er kannski enn verra er að einkennalausir eða einkennalitlir einstaklingar geta líka verið smitandi. Smit frá einstaklingum með einkenni eru þó algengari.

Það þýðir að það sé mjög erfitt að átta sig á öllum sem eru sýktir og til að flækja málið enn frekar þá erum við ekki með sérstaklega góð próf til að staðfesta veiruna — prófin sem við höfum verið að nota telja sumir að sé aðeins um 70% næm. Það er að segja að ef tíu sýktir einstaklingar fara í prófið þá mun niðurstaðan vera að sjö séu sýktir en þrír séu heilbrigðir. Þetta getur líka skapað falskt öryggi og geta þessir einstaklingar sem halda að þeir séu lausir við veiruna, verið smitandi.

En afhverju er svona mikilvægt að almenningur átti sig á hættunni?

Eins og er þá eru um 109.000 með staðfest smit í heiminum og 3.799 hafa látist af völdum hennar. Við metum yfirleitt dánartíðnina sem „case fatality rate“ sem er um 3,5%. En þetta gefur ekki rétta mynd á ástandinu þar sem þessi tala er fengin með að taka fjölda sjúklinga sem hafa sýkst og deila með þeim sem hafa látist, en það eru áfram fjöldi manns sem eru áfram sýktir og gætu látist seinna. Þá er hægt að reikna hversu margir hafa látist miðað við þá sem hafa batnað og þá er hlutfallið um 6%, rétt tala er þó líklega nær 3,5%.

Það verður þó að taka þeirri tölu með ákveðnum fyrirvara þar sem hún getur verið lægri þar sem það er talið að fjöldi fólks séu smitaðir án þess að hafa greinst og séu jafnvel með væg einkenni. En þrátt fyrir það verður að taka alla sjúkdóma með dánartíðni yfir 1% af mikilli alvöru.

En er ekki of seint að reyna að stöðva útbreiðsluna núna?

Svarið er nei, alls ekki! Og þótt að við útrýmum henni ekki alveg, þá getum við hægt verulega á henni og það er verið að þróa bæði lyf og bólusetingar gegn henni þannig líklega værum við betur stakk búin til að takast á við hana seinna.

Kína var með langflest staðfestu smitin miðað við höfðatölu en eru núna aðeins með um 32 þúsund staðfestar virkar sýkingar (en ríflega 80 þúsund staðfest smit almennt) sem hljómar eins og há tala en miðað við höfðatölu þá væri það eins og vera með 8 tilfelli á Íslandi, en við erum með 58 og maður fer að spyrja sig afhverju Íslendingar ganga ekki um með grímur og hvers vegna landið teljist ekki háhættusvæði.

Ástandið er slæmt, en við erum búin að setja fólk í sóttkví og erum að reyna að sporna gegn útbreiðslu sjúkdómsins. Það hefur skilað einhverjum árangri, en er hann nógu mikill?

Ef það eru engar aðgerðir til að sporna gegn útbreiðslunni þá er talið að hver einstaklingur sem smitast muni smita að meðaltali 2-3 aðra og siðan koll af kolli, en með aðgerðum eins og samkomubanni, eða fyrirbyggjandi hreinlætisaðgerðum fólks (andlitsgrímur, handþvottur, forðast að snerta hluti) er hægt að sporna gegn þessari þróun, eigi að taka mark á tölum frá Kína, þar sem dagleg smit eru mjög fá miðað við höfðatölu (það væri eins og 0,25-0,5 smit á dag miðað við Ísland).

En hvað ef við gerum ekkert eða ekki nógu mikið?

Veiran breiddist mjög fljótt út á Ítalíu og er dánartíðnin þar gríðarlega há miðað við annarstaðar í heiminum og er það talið stafa af því að margir hinna smituðu séu aldraðir sem er stór áhættuþáttur.

En það er samt margt sem Ítalir hafa gert betur en við. Til dæmis tóku þeir mun fleiri sýni úr grunuðum einstaklingum en við, ef miðað er við jákvæð svör, þegar Ítalía var að greinast fyrst sem hááhættusvæði. Þá voru um 5% sýna jákvæð hjá Ítölum en við erum bara búin að vinna úr um 500 sýnum og erum með 58 sjúklinga sem gerir um 12% jákvæð, en það bendir til að Ítalar hafi í raun verið að taka mun fleiri sýni miðað við hvert smit.

LSH.

Hver er meðgöngutíminn?

Þegar einstaklingur smitast þá er veiran að fjölga sér í viðkomandi án þess að hann hafi einkenni. Sá tími sem það tekur að smitast þangað til að einkenni birtast er kallaður meðgöngutími og er hann að meðaltali um 5-6 daga fyrir Covid-19 veiruna. Það hefur verið talið að frá því að einkenni birtast þangað til viðkomandi fær alvarleg einkenni séu um sjö dagar og þangað til fólk fer að deyja séu tvær vikur. Þannig við erum enn í raun aðeins í fyrstu vikunni og þegar að fjölmiðlar segja að enginn sé alvarlega veikur, þá ætti frekar að segja að enginn sé alvarlega veikur núna. Þannig getum við farið að búast við alvarlegri tilfellum innan viku, en sem betur fer eru nær öll smitin okkar hjá tiltölulega ungu og hraustu fólki þannig að vonandi verða ekki margir alvarlega veikir.

Ef við miðum við reynslu annarra, gekk það eftir sem talið var að fyrsta innlenda smitið greindist hér 6-7 dögum eftir að fyrsta staðfesta smitið að utan var greint. Við erum núna á stigi tvö þar sem fólk getur alltaf rakið smitleiðir sinar til einstaklinga sem voru á áhættusvæðum en eftir 5-6 daga til viðbótar munum við ekki geta gert að óbreyttu.

Ef við grípum ekki til viðtækari aðgerða en núna þá finnst mér mjög líklegt að þessi veira muni halda áfram að dreifa sér með vísisvexti sem hún virðist vera að gera núna í Evrópu (en hefur ekki verið að gera í Kína undanfarið). Það þarf að hafa í huga að þótt aðgerðum sé beitt þá er áfram fjöldi af smituðum sem eru ekki enn komnir með einkenni vegna meðgöngutímans, og bætast við hópinn seinna.

Þá er spurningin, eru yfirvöld að gera nóg?

Mín tilfinning er nei! Ég var með í viðbragðáætlun fyrir E. bóluna og ef hún hefði borist til landsins þá var planið að loka landsfjórðungum á meðan hættustigið væri hátt.

Það hefði verið hægt að loka landamærunum að löndum með háa tíðni af smitum eins og mörg lönd gerðu á sínum tíma. Það hljóta líka margir að hafa verið gáttaðir þegar sóttvarnalæknir mat ekki hættu af fólki sem var að koma heim úr skíðaferð frá Veróna þrátt fyrir að flugvöllurinn sem flestir flugu í gegnum væri á eða mjög nálægt hááhættu svæði. Það hljóta allir að geta áttað sig á því að það voru mistök.

Við urðum fljótt vör við þessi mistök á myndgreiningardeildinni þegar sjúklingur sem átti að koma í uppvinnslu sem var ekki áríðandi hringdi og var ekki með einkenni og væri búinn að vera á skíðum í Norður Ítalíu, en þar sem embætti landlæknis var ekki búinn að skilgreina það sem hááhættusvæði þá var ekki gerð athugasemd við að viðkomandi mætti. Hann var á biðstofunni innan um annað fólk í 45 min og enginn var með viðeigandi hlífðarbúnað því hann var ekki grunaður um smit. Siðan kom fljótlega í ljóst að hann væri með Covid 19 sýkinguna, það hefði alveg mátt fyrirbyggja þetta atvik.

(Ranghermt var hér í pistli mínum að viðkomandi hafi verið hvattur til að mæta þótt hann væri með einkenni. Leiðréttist það hér með og hef ég breytt pistli mínum í samræmi við það. Höf.)

En að leyfa fluginu út til Veróna að fara af stað laugardaginn 28. febrúar þegar var nokkuð ljóst í hvað sem stefndi tel ég hafa verið mikil mistök. Mér finnst að sökin ætti einfarið að vera hjá yfirvöldum, þau hafa upplýsingarnar og kunna að túlka þær en ekki endilega almenningur.

Þegar fólk er að drulla yfir einstaklinga sem eru í sóttkví eða jafnvel sýktir þá ætti það frekar að beina reiðinni sinni annað.

Ég hef haft miklar áhyggjur af því að skilgreiningarnar fyrir þá sem fara í sóttkví séu ekki nógu strangar.

Það er skrýtið að fyrst var ekki gert ráð fyrir að fólkið smitist í flugvélum utan áhættusvæða, en núna er gert ráð fyrir að maður smitist aðeins ef maður er í tveggja sætaraða fjarlægð frá staðfestu tilfelli, í flugvél.

Ahverju þurfa Íslendingar sem koma frá hááhættusvæðum að fara í sóttkví en ekki útlendingar nema þeir hafi einkenni ?

Ahverju reiknum við með að veiran sé aðeins smitandi í 2 metra fjarlægð þegar það er talið vera að hún sé smitandi á yfirborð hluta í allt að 9 daga?

Ég mun ræða þessi mál og önnur þeim tengd í annarri grein sem birtist hér á morgun.

Höfundur er deildarlæknir á Landspítalanum.