Alþingi á mánudag: Útlendingafrumvarpið fyrsta mál á dagskrá

Frá þingumræðum.

Dagskrá 79. þingfundar
mánudaginn 4. mars kl. 15:00, fyrsta þingfundar eftir kjördæmaviku þingmanna, hefur verið birt á vef Alþingis. Þar kemur í ljós, að fyrsta dagskrármálið að loknum óundirbúnum fyrirspurnum er lagafrumvarp Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra um útlendinga (alþjóðleg vernd).

Til stóð að dómsmálaráðherrann myndi mæla fyrir málinu fyrir kjördæmavikuna, en það tókst ekki þar sem þingmenn Pírata fóru í minniháttar málþóf í umræðum og atkvæðagreiðslum um önnur mál og dróst það svo á langinn að þingfundi var slitið rétt um miðnætti eftir að hafa staðið frá morgni.

Gerði VG fyrirvara?

Vinstri græn hafa enn ekki svarað fyrirspurn Viljans um hvort og þá hvaða fyrirvara þeir gerðu við afgreiðslu frumvarpsins úr þingflokknum, en heimildarmenn Viljans á þingi segja að Orri Páll Jóhannesson, formaður þingflokksins, vilji helst gera sjálfur grein fyrir þeim fyrirvörum í umræðum um frumvarpið.

Málið er umdeilt, enda skiptar skoðanir um þessi mál, en drjúgur þingmeirihluti virðist orðinn fyrir breytingum á ástandi, sem ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, hafa viðurkennt að sé orðið „stjórnlaust“.

Breyting hefur orðið á afstöðu Samfylkingarinnar og Viðreisnar og Miðflokkurinn hefur lýst því yfir, að hann styðji málið en boðar mögulegar breytingartillögur til að ná frekari stjórn á þessum málum. Engu að síður er búist við að málþóf og langar ræður muni einkenna þingstörfin næstu daga, enda eru ekki aðeins Píratar andsnúnir því að herða reglurnar, heldur eru margir þingmanna VG og Samfylkingarinnar afar viðkvæmir fyrir öllu slíku tali.

Viðurkennir að VG sé stillt upp við vegg

Á flokksráðsfundi VG í gær, sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, varaformaður flokksins og félagsmálaráðherra, að búið sé að stilla VG upp við vegg í umræðunni um út­lend­inga­mál.

„Eitt þeirra mál­efna sem hef­ur litað alla stjórn­má­laum­ræðu á und­an­förn­um miss­er­um eru út­lend­inga­mál. Mér hef­ur fund­ist VG fara halloka í þeirri umræðu und­an­far­in miss­eri og við ekki kom­ist nægj­an­lega vel að í umræðunni með áhersl­ur okk­ar, þar sem okk­ur hef­ur ít­rekað verið stillt upp við vegg með að samþykkja eða hafna ein­stök­um laga­frum­vörp­um frá dóms­málaráðherr­um Sjálf­stæðis­flokks­ins,“ sagði Guðmundur Ingi, að því er greint er frá á mbl.is.