Eitt dæmið enn um ágreining milli ríkisstjórnarflokkanna birtist á Alþingi í dag, þegar Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins hafði uppi stór orð um boðaða reglugerð Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um sjálfbæra landnýtingu.
„Bændur hafa um aldir verið vörslumenn lands og lagt sig fram um að nýta land með skynsemi og af ábyrgð og það er engin ástæða til að ætla að breyting verði á því. Fyrir nokkrum vikum voru drög að reglugerð um sjálfbæra landnýtingu kynnt í samráðsgátt stjórnvalda og er samráðsferlinu þar lokið. 82 umsagnir bárust og voru þær allar verulegar neikvæðar.
Margir umsagnaraðilar bentu á að líklega skorti ráðherra lagastoð fyrir því að skrifa undir reglugerðina óbreytta, að hún gangi á eignarrétt og atvinnufrelsi bænda sem varið er í stjórnarskrá. Þá er því haldið fram í mörgum umsögnum að taki reglugerðin gildi óbreytt muni hún kollvarpa sauðfjárbúskap í núverandi mynd á öllu landinu. Í reglugerðinni, eða drögunum, hefur kostnaður ekki verið metinn.
Reglugerðin byggir á hugtakinu vistgeta sem í besta falli er óljóst og í versta falli rangt þar sem skilgreining með mælanlegum og vísindalegum mælikvörðum er ekki sett fram í reglugerðinni. Ekki er minnst á neina mælikvarða fyrir beitingu eða landnýtingu; hvað gæti talist vera ofbeit, hæfileg beit eða lítil beit. Þá er í viðauka við reglugerðina vísað til ýmissa alþjóðlegra viðmiðana sem hafa ekki lagalegt gildi á Íslandi þar sem Ísland er ekki aðili að slíkum samþykktum.
Að öllu þessu virtu verður ekki séð hvernig ráðherra getur undirritað reglugerðina óbreytta. Að mínu mati er hér um að ræða alvarlega aðför að eignarrétti, landbúnaði og byggðafestu í landinu. Það sem snýr að Alþingi er að augljóslega verður að endurskoða reglugerðarheimildina og önnur ákvæði í lögum um landgræðslu og það verður að afmarka skýrt í lögunum orðskýringar og viðmiðanir sem leggja á til grundvallar. Við verðum að hafa þetta skýrt í lögunum þannig að ramminn sem ráðherra getur starfað eftir sé skýr og reglugerðin sé ekki aðför að bændum í landinu,“ sagði þingmaðurinn.