Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra, segir að íslensk stjórnmál og íslenskt samfélag sé gjörbreytt, ef ekki verði gripið til aðgerða til að rannsaka hvernig fundur sex þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins var hleraður og upptökunum komið til fjölmiðla.
Ummæli Sigmundar Davíðs í kvöld koma í kjölfar margvíslegra frétta á vefjum DV/Eyjunnar og Stundarinnar, þar sem vitnað er í gleðskap þingmanna flokkanna tveggja nýverið, þar sem allskonar ummæli eru látin falla, sum afar óviðurkvæmileg, í garð nafngreinds fólks, þar á meðal alþingismanna.
Sigmundur Davíð setti eftirfarandi yfirlýsingu frá sér í kvöld:
„Í kvöld birtust ótrúlegar fréttir sem sagðar eru unnar upp úr leynilegri hljóðupptöku af samtölum þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins.
Þær ægir öllu saman. Í sumu af því sem hefur birst er viljandi eða óviljandi ranghermt um hvað er verið að ræða og hver segir hvað. Samtöl þingmanna sem sitja saman á góðri stund og grínast hver við annan eru auk þess látin hljóma eins og pólitískt plott. Samtal sem ég var sagður hafa átt við Ólaf Ísleifsson um að hann yrði þingflokksformaður Miðflokksins var unnið upp úr samræðum milli annarra manna um aðra hluti í léttum dúr og fór fram eftir að Ólafur var farinn.
Alvarlegast er þó ef raunin er sú að á Íslandi sé farið að stunda hleranir á einkasamtölum stjórnmálamanna. Hafi verið gerð hljóðupptaka af fundi þeirra sex þingmanna sem þar eru nefndir hlýtur það að teljast alvarlegt mál. Hópurinn sem vísað er til sat einn úti í horni og því ekki um annað að ræða en að brotist hafi verið inn í síma einhvers þeirra sem þarna voru staddir eða beitt hlerunarbúnaði.
Ég man ekki eftir dæmi um slíkt í íslenskri stjórnmálasögu og aðeins einu dæmi frá Bretlandi. Það var þegar útsendarar blaðsins News of the World hleruðu símtöl stjórnmálamanna og annars þekkts fólks. Það athæfi var litið alvarlegum augum og gripið til aðgerða í samræmi við það. Ég vona að sú verði raunin á Íslandi líka. Annars eru Íslensk stjórnmál og íslenskt samfélag gjörbreytt.“