Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að framlag Íslenskrar erfðagreiningar í fyrstu bylgju kórónuveirufaraldursins hér á landi verði seint fullþakkað.
Í samtali við Björn Inga Hrafnsson í Hlaðvarpi Viljans, segir sóttvarnalæknir að Veirufræðideild Landspítalans og starfsfólk hennar hafi staðið sig gríðarlega vel miðað við mikið vinnuálag, en þar hafi komið upp ýmis vandamál, tæki bilað og skortur komið upp á pinnum fyrir sýnatökur og hvarefnum sem sett hafi stórt strik í reikninginn.
„Þá kom Íslensk erfðagreining mjög sterk inn til aðstoðar. Útvegaði sér tæki, hvarfefni, pinna einn, tveir og þrír og hlupu alveg gríðarlega vel undir bagga með íslensku heilbrigðiskerfi. Ég er ekki viss um að fólk geri sér almennilega grein fyrir því hve Íslensk erfðagreining reyndist vel þegar veirufræðideildin lenti í vandræðum. Það verður seint fullþakkað,“ segir Þórólfur í viðtalinu.
Um hundrað ritrýndar greinar hafa birst undanfarið tengdar rannsóknum Íslenskrar erfðagreiningar og vísindamanna hennar og annarra vísindamanna frá Háskólanum og Landspítalanum á Covid-19 og Þórólfur segir gríðarlega mikilvægt að hafa slíkt fyrirtæki í fremstu röð starfandi hér á landi.
„Það er alveg gríðarlegt samansafn af snillingum þarna innanhúss,“ segir hann.
„Ég veit alveg að menn hafa mismunandi skoðanir á Íslenskri erfðagreiningu. Það er fátt í íslensku samfélagi sem skoðanir eru jafn skiptar um, annað hvort með eða á móti. En almenningur er mjög hliðhollur þessu fyrirtæki, ekki síst eftir framgöngu þess undanfarnar vikur, og ég hef ekkert nema gott um þá að segja, þau hafa staðið sig gríðarlega vel.“
Sóttvarnalæknir bendir á að Covid-19 sé nýr faraldur, ný veira og því gríðarlega mikilvægt að geta safnað saman eins miklum upplýsingum og hægt er um þennan sjúkdóm, greina þær og koma í vísindalegan búning svo unnt sé að byggja sóttvarnarráðstafanir á bestu og nýjustu upplýsingum hverju sinni, skilið faraldurinn betur svo það nýtist vísindamönnum og stjórnvöldum um allan heim.