Ályktun fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, sem borin var upp á fundi ráðsins þann 30. maí í vor, var stungið undir stól með því að vísa henni til stjórnar kjördæmisráðsins, þar sem hún er enn.
Þetta upplýsir sr. Geir Waage, sóknarprestur í Reykholti, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag, en hann var einn flutningsmanna og ritar greinina fyrir hönd þeirra allr.
Geir segir að á fundi fulltrúaráðsins hafi þingmenn flokksins að venju flutt frásögn af gangi mála á Alþingi og í ríkisstjórn.
„Lofuðu þau gott samráð og samþykki ríkisstjórnarinnar og afrek hennar á hinum pólitíska vettvangi. Á fundinum varð mikil umræða um þriðja orkupakkann. Fyrrverandi þingmaður flokksins opnaði umræðuna með aðvörunarorðum og efnislegri gagnrýni á allan framgang málsins. Allir ræðumenn, að undanteknum sitjandi þingmönnum, tóku í sama streng. Lýstu þeir allir stuðningi við eftirfarandi tillögu, sem fram var lögð á fundinum.
Þegar ljóst var orðið að tillagan fengi brautargengi var brugðið á gamalreynt ráð: Formaður kjördæmisráðsins lagði fram dagskrártillögu: Málinu skyldi vísað til stjórnar kjördæmisráðsins. Hlýddu fundarmenn að undanteknum flutningsmönnum tillögunnar því boði. Tillagan með greinargerð hvílir því þar, því vitaskuld ganga flokkshollir sjálfstæðismenn í einu höfuðvígi flokksins á landsbyggðunum ekki gegn flokksforystunni á vettvangi flokksins. Þeir verða hins vegar með sjálfum sér einir í kjörklefanum við næstu kosningar til Alþingis,“ segir Geir í grein sinni.
Geir Waage, Davíð Pétursson, Bryndís Geirsdóttir og Sigrún Guttormsdóttir Þormar voru flutningsmenn tillögunnar sem hljóðaði svo, ásamt greinargerð:
„Kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi hafnar þriðja orkupakka Evrópusambandsins og skorar á þingmenn flokksins á Alþingi að láta af stuðningi við málið á þinginu.“
Minnir nú æ meira á leynifélag um hagsmuni fárra
„Sjálfstæðisflokkurinn stendur við yfirlýsingu sína frá stofnun flokksins um að allt málefni landsins skuli vera í höndum landsmanna sjálfra og að gögn og gæði landsins skuli nýtt fyrst og fremst í þágu landsmanna sjálfra.
Ísland keypti sér mjög dýran aðgang að erlendum markaði í formi ESS-samnings, sem Alþingi samþykkti í því skyni að fá tollfrjálst aðgengi fyrir sjávarfang úr landhelgi og lögsögu Íslendinga. Það tollfrjálsa aðgengi hefur ekki enn fengizt að fullu. Íslenzkar sjávarafurðir sæta enn tollum inn á þann markað sem sagður var tilefni EES-samningsins.
Sjálfstæðisflokkurinn á að falla frá stuðningi við að þriðji orkupakki Evrópusambandsins verði leiddur í íslenzk lög. Honum skal vísað frá á forsendu EES-samningsins sjálfs.
Samþykkt þriðja orkupakkans skerðir fullveldi þjóðarinnar. Enginn munur er á að veita útlendingum vald yfir orkulögsögu Íslendinga, og að undirgangast vald þeirra yfir fiskveiðilögsögu okkar. Þar er enginn eðlismunur á.
Ísland er og verður fjarri erlendum mörkuðum. Það eitt dregur úr samkeppnishæfni Íslendinga miðað við önnur lönd. Fjarlægð við erlenda markaði mun ávallt draga úr samkeppnishæfni Íslands gagnvart útlöndum.
Það er því lífsnauðsynlegt að Ísland nýti allar auðlindir sínar í þágu þjóðarinnar, til að auka samkeppnishæfni okkar gagnvart útlöndum. Ódýr íslenzk orka er forsenda fyrir framleiðslu hér heima, sem bætir upp fjarlægð landsins frá mörkuðum erlendis.
Ísland á að nýta náttúruauðlindir sínar til atvinnuuppbyggingar í þágu landsmanna á Íslandi öllu.
Sjálfstæðisflokkurinn verður að kannast við sjálfan sig og yfirlýstan tilgang flokksins og standa við stefnumörkun sína frá upphafi um varðveizlu frelsis og fullveldis þjóðarinnar.
Forsenda framfara og afkomu Íslendinga er að þröng hagsmunaöfl hindri ekki farsæla för þjóðarinnar á forsendu sjálfstæðisstefnunnar til framtíðar“.
Geir segir að nú beiti forysta Sjálfstæðisflokksins húsaganum til hítar. „Öll gagnrýni er hunzuð. Eitt sinn var flokkurinn einn breiðasti virki lýðræðisvettvangur landsins en minnir nú æ meira á leynifélag um hagsmuni fárra.
Því þakka flutningsmenn ofangreindrar tillögu Jóni Kára Jónssyni og sjálfstæðismönnum í Hlíða- og Holtahverfi í Reykjavík árvekni og drengskap með því framtaki að knýja flokksforystuna til þess að hlusta á vilja sjálfstæðismanna. Hvenær hann birtist er undir því komið hvort menn nenna enn að virða flokkinn viðlits.“