Tveir af helstu forystumönnum Framsóknarflokksins, þau Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra, kæmust ekki á þing, yrðu úrslit komandi alþingiskosninga í samræmi við nýja skoðanakönnun MMR og Morgunblaðsins sem birt var í dag.
Samkvæmt könnuninni myndi Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, ekki heldur ná kjöri og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, næði því aðeins sem jöfnunarmaður í Norðausturkjördæmi, en yrði ekki kjördæmakjörinn.
Samkvæmt könnuninni myndi ríkisstjórnin rétt halda velli með 33 þingmenn. Morgunblaðið segir þó að sá meirihluti geti tæplega orðið naumari fyrir lífvænlega ríkisstjórn.