Ánægjulegar fréttir: Toppnum virðist náð í útbreiðslu Covid-19 hér

Þórólfur sóttvarnalæknir Guðnason. / Lögreglan.

Kór­ónu­veirufar­ald­ur­inn er á niður­leið hér á landi ef marka má tölur undanfarinna daga. Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi Almannavarna í dag.

„Við get­um sagt að við séum búin að ná toppn­um,“ sagði hann og vísað til þess að fjöldi þeirra sem batnar er nú umfram þá sem greinast með ný smit.

Þótt tíðindin séu sannarlega ánægjuleg, undirstrikaði sóttvarnalæknir að ekki megi mikið út af bregða. Nýjar hópsýkingar geti breytt stöðunni, en þó megi gleðjast yfir þeirri stöðu sem upp er komin. Samfélagslegt smit virðist alls ekki mikið og ekki útbreitt um landið.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra, sagði aðspurður að mikil vinna eigi sér nú stað við að greina stöðuna og gera áætlanir um afléttu takmarkana sem eru í gildi og samkomubanns. Fundað hafi verið með ráðuneytisstjórum og á morgun verði rætt við ráðherra í ríkisstjórninni.

Stefnt er að því að tilkynna um rýmkaðar reglur eftir páska, en landsmenn verði þó að búa sig undir að það verði gert í hægum skrefum svo minni líkur séu á að faraldurinn blossi aftur upp.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. / Lögreglan.