Ánægjulegt að áherslan á stöðugleika og lága verðbólgu lifði af

„Mér líst bara ágætlega á þessa kjarasamninga, sérstaklega áherslan á krónutölu og þá tekjulægstu. Einnig held ég að áralöng umræða við stjórnvöld, sem á endanum varð býsna hörð, hafi skilað mikilvægum árangri í tekjujöfnun leið til að gera þeim tekjulægstu lífið bærilegra,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, fv. forseti ASÍ í samtali við Viljann, aðspurður um nýju lífskjarasamningana sem undirritaðir voru í gærkvöldi.

Gylfi er meðal þeirra sem hafa sótt um stöðu seðlabankastjóra og hann hefur vitaskuld skoðun á samningunum sem slíkum og efnahagslegum áhrifum þeirra.

„Ég verð þó að viðurkenna að samkomulagið um að heimila að ,,tilgreind séreign’’ verði ráðstafað til húsnæðismála veldur mér vonbrigðum. Þeir sem þetta velja munu þá ekki njóta jöfnunar lífeyrisréttinda og gæti komið harkalega niður á þeim þegar kemur að töku ellilífeyris,“ segir hann ennfremur.

Gylfi bendir á, að áherslan í þessum samningum sé sú sama og verið hefur frá gerð þjóðarsáttarsamninganna, þ.e áhersla á hækkun þeirra tekjulægstu.

„Það er ánægjulegt að sjá að áherslan á stöðugleika og lága verðbólgu hefur lifað þessar hræringar af, það skiptir alla mestu máli. Miðað við það sem stefndi í kemur þetta ef til vill mörgum á óvart en ég þykist vita að fylgi við þá stefnu er og hefur verið mikið, en reiðin yfir framgöngu stjórnmálanna gagnvart þeim tekjulægstu undanfarin mörgu ár hafi haft mikil áhrif..“ segir hann.

Hann segir augljóst að gjaldþrot flugfélagsins WOW hafi haft áhrif á stöðumat allra sem að málinu komu.

„Auðvitað hlutu afdrif WOW að hafa áhrif á stöðumatið. Hvað varðar forsenduna um vaxtalækkun þá hefur þetta ekki áður verið gert svona, oftar horft á verðbólguna eða gengið sjálft (þegar það var í höndum ríkisstjórna). Fulltrúar í peningastefnunefnd hafa svolítið gefið undir fótinn með þetta á undanförnum dögum, þannig að þetta kemur ekkert á óvart.

Ég tel þetta ekki með neinum hætti binda hendur Seðlabankans varðandi hans skyldur og úrræði, enda ekki beinn aðili að þessum samningum. Ef þær aðstæður skapast í okkar hagkerfi fram til þessa tíma að bankinn telji ástæðu til þess að grípa til vaxtahækkunar (eða ekki að lækka vexti) er það vegna þess að önnur hagstjórnartæki hafi ekki verið virkjuð sem skyldi og við þær aðstæður á bankinn ekki margra kosta völ,“ segir Gylfi og bætir við að engin ástæða til þess að gera of mikið úr þessu.