Andstæðingum hefur ekki áður tekist að stöðva varnarframkvæmdir

Þorsteinn Pálsson fv. forsætisráðherra. / Skjáskot RÚV.

„Andstæðingum varnarsamvinnunnar hefur ekki áður tekist að stöðva varnarframkvæmdir þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt aðild að ríkisstjórn. Í því ljósi var þetta frétt um pólitísk vatnaskil í varnarmálum,“ segir Þorsteinn Pálsson fv. forsætisráðherra um fréttir sem birtust í Morgunblaðinu í vikunni um að Vinstri græn hefðu hafnað hugmyndum Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra um að ráðast í uppbyggingu á varnarsvæðinu og við Helguvík.

Í Fréttablaðinu í dag skrifar Þorsteinn:

„Fram til þessa hafa flestir litið svo á að andstaða VG við varnarsamstarfið væri fyrst og fremst táknræn. Í stjórnarsáttmálanum er ekki minnst á neitunarvald. En nú benda frásagnir til þess að neitunarvaldið sé virkt.

Standi þessir málavextir óbreyttir geta aðrar þjóðir með réttu litið svo á að VG hafi einnig neitunarvald, ef til þess kæmi að virkja þyrfti ákvæði varnarsamningsins vegna yfirvofandi ógnar. Það myndi setja strik í reikninginn um stöðu Íslands.

Óhjákvæmilega vaknar einnig sú spurning hvaða pólitíska umboð utanríkisráðherra hefur eftir þetta í samtölum við Bandaríkin og aðrar bandalagsþjóðir um áframhaldandi þróun varnarsamstarfsins.“

Þorsteinn vísar ennfremur til þess, að þegar hervernd Bandaríkjanna lauk 1946 fóru þau fram á að fá aðstöðu á Keflavíkurflugvelli þótt herinn færi.

„Þáverandi utanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins vissi um andstöðu ráðherra sósíalista. Hann samdi eigi að síður og lagði niðurstöðuna fyrir Alþingi, sem samþykkti samninginn.

Sósíalistar rufu þá stjórnarsamstarfið. Í framhaldinu var mynduð stjórn þeirra flokka, sem samþykktu samninginn.

Alþýðubandalagið samdi 1956 og 1971 um brottför varnarliðsins. Framsókn, Alþýðuflokkur og Samtök frjálslyndra og vinstrimanna, sem sátu í þeim stjórnum, komu í bæði skiptin í veg fyrir að við þau loforð yrði staðið án þess að það hreyfði við ráðherrum Alþýðubandalagsins.

Við ríkisstjórnarmyndun Gunnars Thoroddsen 1980 náði Ólafur Ragnar Grímsson því fram að nýja flugstöðin fyrir borgaralegt flug, sem Bandaríkjamenn kostuðu, var minnkuð lítið eitt. Það er eini árangurinn fram til þessa.

Þótt Sjálfstæðisflokkurinn hefði tekið á málinu nú með sömu festu og 1946 er mjög ólíklegt að VG hefði rofið stjórnarsamstarfið. En með því móti hefði hann hins vegar sýnt að andstæðingar varnarsamstarfsins hafi ekki neitunarvald um þróun þess.

Þessu geta kjósendur ekki lengur treyst. Þó að Sjálfstæðisflokkurinn eigi vísan stuðning meirihluta Alþingis í þessu máli kýs hann að láta VG ráða för. Það er mikil ábyrgð þegar teflt er um mál, sem snerta öryggi landsins. Til þessa hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki litið á varnarmálin sem skiptimynt.

Fyrir Alþingi liggur frumvarp frá öllum þingmönnum VG um að taka valdið um varnarliðsframkvæmdir frá utanríkisráðherra. Flutningur þess lýsir fádæmalausri ögrun í stjórnarsamstarfi, en virðist þegar hafa haft veruleg óbein áhrif.“