Annað andlátið tengt Kórónaveirunni hér á landi

„Mánudaginn 23. mars 2020 lést á smitsjúkdómadeild Landspítala liðlega sjötug kona, sem glímt hafði við langvarandi veikindi. Andlátið varð í kjölfar veikinda konunnar af völdum Covid-19-sjúkdómsins.“

Þannig hljómar yfirlýsing sem birt er á vefsvæði Landspítalans nú í morgun, þar sem spítalinn vottar fjölskyldu konunnar samúð og virðingu.

Fréttablaðið hafði sagt frá andláti konunnar á forsíðu í dag.

Þetta er annað dánartilfelli Kórónaveirunnar Covid-19 hér á landi, en ástralskur ferðamaður um fertugt lést af völdum lungnabólgu á dögunum eftir að hann leitaði til heilsugæslu á Húsavík. Í ljós kom að hann var smitaður af veirunni.