Annar hver Svíi gæti hafa smitast í apríl

Í Svíþjóð hafa yfirvöld beitt lágmarksaðgerðum til að hefta útbreiðslu á Kórónuveirunni. Stjórnvöld þar í landi hafa sumpart verið gagnrýnd fyrir aðgerðaleysi, enda hefur faraldurinn breiðst út jafnt og þétt á meðan börn eru enn í skólum og flestir vinnustaðir starfræktir. Í samanburði við Danmörku er þó hvort tveggja smit- og dánartíðni á svipuðu reki.

Búist er við því að um helmingur sænsku þjóðarinnar hafi smitast af veirunni í apríl, samkvæmt Tom Britto, prófessor í stærðfræði og tölfræði við Háskólann í Stokkhólmi. Hann hefur starfað um árabil við að útbúa líkön yfir útbreiðslu landlæga smitsjúkdóma.

Því hefur verið haldið fram að markmið sóttvarnayfirvalda í Svíþjóð sé að ná tilskyldum fjölda sýktra svo unnt sé að mynda hjarðónæmi meðal þjóðarinnar. Ummæli prófessorsins virðast renna stoðum undir slíkar vangaveltur.

„Þetta er það bráðsmitandi sjúkdómur að yfir helmingur þjóðarinnar mun verða smitaður af veirunni í lok apríl. Í kjölfarið verður sjúkdómurinn á undanhaldi og tilfellum fer fækkandi. Í lok maí hafa  tveir af hverjum þremur orðið fyrir smiti, segir Britto.

Framtíðarspáin byggist á mati sérfræðinga að nú séu á bilinu hálf miljón eða allt að miljón manns smitaðir af veirunni í Svíþjóð, þar sem ríflega 10 miljónir manna eru búsettar. Tom Britto segir að erfitt sé að vera viss í þessum efnum en að nokkuð öruggt sé að áætla að einn af hverjum 20 hafi fengið veiruna.

Í ljósi þessarar spár er talið að best sé fyrir aldraða og fólk í áhættuhóp að halda sig í einangrun í aprílmánuði. 

Þetta þýðir sömuleiðis fyrir hinn dæmigerða Svía, að einn af hverjum tíu gætu hugsanlega smitað þig í apríl en í maí ætti hættan að vera yfirstaðin.

Útreikningur þessi byggist á þeirri vísitöluspá að hver smitaður einstaklingur nái að smita 2,5 manns að meðaltali. Sænska landlæknisembættið hefur beitt aðgerðum til að halda þessu meðaltali í skefjum. Fyrir um tveimur vikum var háskólum og menntaskólum lokað í Svíþjóð og í staðinn notast við fjarkennslu. Þá voru samkomur fyrir yfir 500 manns bannaðar og í síðustu viku var skerðingin hert niður í 50 manns. 

„Það hefði líklega verið hægt að draga veirusýkingu um samfélagið á langinn með harðari aðgerðum á borð við fulla einangrun, útgöngubann og lokun á starfsemi en það hefði auðvitað haft afdrifarík áhrif á samfélagið í heild. Ég tel að það sé búið að finna nokkuð góðan farveg í þessum málum,“ segir prófessorinn og bendir á að faraldurinn í Svíþjóð sé hvergi nálægt þeim hamförum sem eiga sér stað á Ítalíu og Spáni.

„Ég tel að faraldurinn muni snarminnka í júní og nánast hverfa í sumar, segir Tom Britto,“ í samtali við Gautaborgarpóstinn.