Sýni sem tekið var af karlmanni á sextugsaldri sem kom til landsins í gær með flugvél Icelandair frá Veróna á Ítalíu reyndist jákvætt fyrir COVID-19 smiti. Þar með hafa tvö tilfelli veirunnar verið staðfest á Íslandi. Maðurinn sem um ræðir var með lítil einkenni í gær og enn minni í dag.
Áhættumat vegna ferðalaga til Ítalíu er nú breytt og er landið allt nú flokkað sem áhættusvæði. Þess vegna beinir sóttvarnalæknir því til allra þeirra farþega sem voru um borð í flugvélinni að fara í 14 daga sóttkví sem og allra þeirra sem koma frá Ítalíu á næstunni. Allir þeir sem eru í sóttkví skulu hafa samband við síma 1700 ef þau finna fyrir fyrrgreindum einkennum, jafnvel þótt væg séu.
Almannavarnir og starfsfólk sóttvarnalæknis mun í kvöld hefjast handa við að rekja allar mögulegar smitleiðir í tengslum við þetta nýja staðfesta smit. Allir þessir einstaklingar munu í kvöld fá upplýsingar um stöðu mála og leiðbeiningar um sóttkví. Þessir einstaklingar eru hvattir til að hafa ekki samband við síma 1700 eða Neyðarlínuna nema að þau finni fyrir einkennum (hósti, hiti og beinverkir). Ljóst er að einhvern tíma getur tekið að ná sambandi við alla og farþegar eru beðnir að sýna biðlund.