Árangur einstakra skóla verði birtur: Leyndarhyggja um PISA verður að víkja

Reykjavíkurborg er stærsti rekstraraðili grunnskóla á Íslandi. Á borgarstjórnarfundi í dag lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að teknar verði saman sundurgreindar niðurstöður úr PISA 2022 um hvern grunnskóla fyrir sig. Viðkomandi skólastjórnendur verði upplýstir um frammistöðu síns skóla og þeim þannig gefinn kostur á að nýta þær til úrbóta í störfum sínum.

„Í hvert sinn sem niðurstöður Pisa-könnunar eru kynntar hérlendis, fer af stað hópur stjórnmálamanna, sem berst af alefli gegn því að sundurgreindar upplýsingar um hvern skóla fyrir sig séu teknar saman í því skyni að nýta þær til umbóta í einstökum skólum. Sú hugmynd að foreldrar séu upplýstir um stöðu þeirra skóla, sem börnin þeirra ganga í, virðist vekja sérstaka andúð þessara sömu stjórnmálamanna,“ sagði Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, á borgarstjórnarfundi í dag.

Hann sagði þetta bagalegt, því niðurstöður PISA væru mjög mikilvæg endurgjöf á það starf skólanna, sem könnunin mælir og um leið verkfæri skólanna til umbóta. 

„Hér áður fyrr fóru margir reykvískir skólar í umbótastarf á grundvelli PISA-niðurstaðna. Víða um heim gaumgæfa sveitarfélög niðurstöður PISA fyrir einstaka skóla og ráðast síðan í umbótastarf á grundvelli þeirra. Á það meðal annars við um Finna, þá Norðurlandaþjóð sem nær bestum árangri í PISA og Eista, þá Evrópuþjóð sem nær bestum árangri í könnuninni.

Þessi leyndarhyggja um PISA-niðurstöður verður að víkja fyrir gagnsæi. Aðeins þannig geta einstök skólaráð, foreldrafélög og skólastjórnendur áttað sig á því hvað hafi misfarist í skólum sínum og hvað tekist vel. Á grundvelli slíkra upplýsinga er síðan hægt að efna til umræðna um æskilegar úrbætur, sem mikil þörf virðist vera á í mörgum skólum,“ bætti hann við.

Kjartan vísaði til þess að færustu sérfræðingar í menntamálum telji stöðu Íslendinga í alþjóðlegum samanburði PISA ískyggilega og ekki verði lengur vikist undan því að grípa til markvissra umbóta í grunnskólakerfinu.

„Raunar væri æskilegt að ganga lengri og upplýsa viðkomandi skólaráð og stjórnir foreldrafélaga jafnframt um niðurstöður þeirra skóla. Slíkt þykir vera sjálfsagt mál víða erlendis og eðlilegur hluti af umbótastarfi skólastofnana.

Meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar hefur hins vegar ákveðið að vísa þessari tillögu Sjálfstæðisflokksins til nefndar (skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur). Því miður má búast við því að ekki verði fallist á tillöguna þar eins og áður hefur gerst þegar slíkum tillögum um PISA hefur verið vísað úr borgarstjórn til nefndar.

Það skýtur skökku við að sömu stjórnmálamenn og segjast styðja og viðurkenna mikilvægi foreldra í skólastarfi, skuli á sama tíma leggjast gegn því að foreldrar séu upplýstir um stöðu þess skóla, sem börnin þeirra ganga í.

Í rúman áratug hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lagt til að þær dýrmætu upplýsingar, sem fást með Pisa-könnuninni, verði nýttar í þágu umbóta í skólastarfi. Slíkar tillögur voru fluttar 2014, 2017, 2019 en voru ætíð felldar af borgarfulltrúum vinstri flokkanna undir forystu Samfylkingarinnar.

Skóla- og frístundamál eru langumfangsmesti málaflokkur Reykjavíkurborgar. Í ár nema fjárveitingar til málaflokksins 73 milljörðum króna eða um 54% af skatttekjum borgarinnar. 

Við rekstur skólakerfa er mikilvægt að setja fram skýr markmið og mæla árangurinn í því skyni að auka gæðin með markvissum hætti. Þjóðir í fremstu röð í menntamálum leggja mikla áherslu á að nýta samræmdar mælingar til að bæta menntun skólakerfa sinna. Á þetta ekki síst við um Pisa-könnunina,“ sagði Kjartan ennfremur.