Gærdagurinn var stærsti dagur í staðfestum nýsmitum af Kórónaveirunni Covid-19 hér á landi. Fór tala smitaðra í fyrsta sinn yfir hundrað á einum degi og greindust alls 104.
Athygli vekur að þetta kom ekki í ljós fyrr en tölfræði var birt á upplýsingasíðunni um faraldurinn í dag, en þá bættist mjög við fjölda tilfella fyrir gærdaginn.
Alls hafa nú 820 greinst með Kórónaveiruna hér á landi. Sautján liggja á spítala, þar af þrír sjúklingar á gjörgæslu.
Á blaðamannafundi Almannavarna og Embættis landlæknis í dag, kynnti Thor Aspelund prófessor við Háskóla Íslands hugmyndafræðina á bak við spálíkan sem notað er til að reikna út mögulega útbreiðslu faraldursins hér á landi.
Sagði hann að líkanið miðist ávallt við nýjustu gögn, það sé keyrt daglega og upplýsingar svo birtar almenningi tvisvar til þrisvar í viku.
Meðalaukning smita á Íslandi er með því lægsta sem gerist í Evrópu, að sögn Thors. Það bendi til að aðgerðir sem gripið hefur verið til, svo sem samkomubann og sóttkví, séu að ná tilætluðum árangri. Tölur yfir nýsmit sýni heftan vöxt, ekki veldisvöxt.
Aðspurður hvort metdagurinn í gær hefði mikil áhrif á nýjustu spár, sagði Thor svo ekki vera, en flest benti til þess að við værum að ná tiltætluðum árangri í vörnum gegn útbreiðslu veirunnar.
Undir það tók Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á fundinum. Hann sagði unnið nákvæmlega eftir bestu fræðum og ástæða væri til að horfa á þróun mála hér með jákvæðum augum. Við værum að árangri og munum komast út úr þessu ef haldið verði áfram á sömu braut.
Á vef Ríkisútvarpsins má sjá upptöku af erindi Thors á fundinum í dag.