Áréttaði óánægju íslenskra stjórnvalda með viðskiptabann á fisk

Frá fundi utanríkisráðherranna í Moskvu í dag.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, ræddu norðurslóðamál, tvíhliða samskipti og viðskipti á fundi sínum í Moskvu í dag. Þá voru öryggismál í Evrópu og alþjóðamál einnig til umræðu.

Þetta er í fyrsta skipti í átta ár sem að utanríkisráðherra Íslands fer til Moskvu til fundar við kollega sinn en síðast funduðu þeir Guðlaugur Þór og Lavrov í Rovaniemi í Finnlandi í maí síðastliðnum þegar Ísland tók við formennsku í Norðurskautsráðinu, að því er greint er frá á vef utanríkisráðuneytisins.

Ráðherrarnir undirrituðu sameiginlega yfirlýsingu um áframhaldandi samstarf innan Norðurskautsráðsins, en Ísland gegnir formennsku í ráðinu fram í maí 2021 en þá tekur Rússland við keflinu.

„Þótt íslensk og rússnesk stjórnvöld greini á um ýmislegt deilum við sýn á mikilvægi norðurslóða og yfirlýsingin sem við undirrituðum í dag staðfestir það. Hún er gott veganesti fyrir bæði ríkin til að tryggja nauðsynlega samfellu í starfi Norðurskautsráðsins og þar áréttum við þýðingu friðar, stöðugleika og fjölþjóðasamvinnu á þessu viðkvæma svæði,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Viðskipti Íslands og Rússlands voru jafnframt ofarlega á baugi á fundi utanríkisráðherranna. Þau hafa aukist verulega undanfarin misseri eftir lægð í kjölfar innflutningsbanns Rússa á matvæli frá Vesturlöndum.

Utanríkisráðherra áréttaði óánægju íslenskra stjórnvalda með umfang bannsins sem hefur komið mjög illa niður á fiskútflutningi Íslendinga. Á hinn bóginn hafa skapast tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki í Rússlandi sem selja búnað og þjónustu tengd sjávarútvegi. Þá er ferðaþjónusta á milli landanna einnig í sókn.

„Þessi nýja sókn íslenskra fyrirtækja í Rússlandi vega auðvitað ekki upp á móti tapinu sem innflutningsbann Rússa á matvælum hefur bakað okkur. Hins vegar sýna þeir að viðskipti Íslands og Rússlands eru þrátt fyrir allt blómleg og fara vaxandi, ekki síst á sviði nýsköpunar og tækni sem eru atvinnugreinar sem skipa æ ríkari sess í íslenskum útflutningi,“ segir Guðlaugur Þór.

Með utanríkisráðherra í för er viðskiptasendinefnd skipuð fulltrúum 19 fyrirtækja, Íslandsstofu, utanríkisráðuneytisins Viðskiptaráðs Íslands og Rússnesk-íslenska viðskiptaráðsins, auk ræðismanna. Viðskiptaráðið var stofnað nýverið með þátttöku 44 fyrirtækja, sem sýnir glöggt áhugann á að efla viðskipti landanna. Viðskiptasendinefndin átti fundi fyrr í vikunni með Business Russia Association og Viðskiptaráði Rússlands ásamt því að heimsækja nýsköpunarmiðstöðina í Skolkovo í útjaðri Moskvu.