Ásakanir um kosningasvindl alvarlegar og meiðandi

Mannréttindastjóri Reykjavíkurborgar, Anna Kristinsdóttir, segir ásakanir um kosningasvindl sem fram hafa komið í tengslum við umræðu um ákvörðun Persónuverndar séu alvarlegar og meiðandi, að því er segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Persónuvernd tók ákvörðun í frumkvæðisathugunarmáli stofnunarinnar á notkun Reykjavíkurborgar og rannsakenda við Háskóla Íslands á persónuupplýsingum frá Þjóðskrá Íslands í því skyni að senda ungum kjósendum, konum 80 ára og eldri og erlendum ríkisborgurum bréf og smáskilaboð fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í maí 2018.

Sendingarnar hafi innihaldið mismunandi hvatningarskilaboð sem voru gildishlaðin og í einu tilviki röng og voru til þess fallin að hafa áhrif á hegðun þeirra í kosningunum, að því er segir í ákvörðun Persónuverndar

Niðurstaða Persónuverndar var að við vinnslu persónuupplýsinga hefðu Reykjavíkurborg og rannsakendur við Háskóla Íslands ekki gætt að ákvæðum þágildandi persónuverndarlaga, m.a. um að við vinnslu persónuupplýsinga beri að gæta að gagnsæi og fyrirsjáanleika, og hafi því brostið heimild til vinnslunnar. Það var einnig niðurstaða Persónuverndar að Þjóðskrá Íslands hefði ekki gætt að meginreglu þágildandi persónuverndarlaga, um að þess skuli gætt við vinnslu persónuupplýsinga að þær séu nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar, þegar stofnunin afhenti Reykjavíkurborg upplýsingar um kyn og ríkisfang erlendra ríkisborgara.

Loks voru Reykjavíkurborg veittar átölur fyrir að hafa veitt Persónuvernd ófullnægjandi upplýsingar við meðferð málsins.

Benda á önnur verkefni sem gerð hafa verið til að auka kosningaþátttöku

Anna segist í tilkynningu Reykjavíkurborgar taka ákvörðun Persónuverndar alvarlega, en segir hana þó koma á óvart í ljósi fyrri samskipta við stofnunina. Hún segir mikilvægt að bregðast við henni með faglegum hætti. 

„Verkefnið var allt unnið af starfsmönnum Reykjavíkurborgar  og fræðafólki í Háskóla Íslands þar sem okkur gekk það eitt til að auka kosningaþátttöku og fræðast um kosningahegðun. Stjórnmálamenn höfðu þannig enga aðkomu að verkefninu eftir samþykkt borgarráðs,“ er haft eftir Önnu í tilkynningunni og bent er á að í undanförnum kosningum hafa ýmis ráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg styrkt ýmis verkefni sem lúta að því að auka kosningaþátttöku, á grundvelli upplýsinga um dræma kosningaþátttöku, eins og Skuggakosningar í grunn- og framhaldsskólum, vefinn http:/egkys.is , myndband og tónleika.

Þegar Persónuvernd hóf frumkvæðisathugun sína í júní sl. var það samdóma álit mannréttindaskrifstofu [Reykjavíkurborgar] og Háskólans að rannsóknin yrði ekki framkvæmd fyrr en álit Persónuverndar lægi fyrir. Nú liggur fyrir að ekki verður unnið frekar að rannsókninni, segir í tilkynningunni. Borgin og þeir aðilar sem ákvörðunin fjallar um eru nú að kynna sér niðurstöðuna sem er ítarleg.

Mannréttindastjóri borgarinnar í samvinnu við persónuverndarfulltrúa og borgarlögmann eru að vinna minnisblað og nánari greiningu á ákvörðuninni. Jafnframt þarf að fara yfir málið með Háskóla Íslands, samstarfsaðila borgarinnar í málinu, þar sem ákvörðun Persónuverndar snýr einnig að honum. Í þeirri yfirferð þarf að skoða sérstaklega hvort og þá hvernig framkvæmd borgarinnar var frábrugðin framkvæmd sambærilegra verkefna á Norðurlöndunum, sem var fyrirmyndin að verkefni Reykjavíkurborgar.