Frá því var skýrt á bandarísku vefsíðunni military.com í byrjun ársins að sjóliðar um borð í bandaríska flugmóðurskipinu John C. Stennis gætu lagt þar rækt við ásatrú ef þeir kysu. Í nýlegri fréttatilkynningu frá skipinu á Persaflóa segði að „fámennur en staðfastur“ hópur sjóliða fengi afnot af kapellu skipsins í þessu skyni.
Í frétt military.com er lesendum gerð grein fyrir uppruna ásatrúar og vitnað í óvísindalegt „manntal“ vefsíðunnar Norse Mythology Blog frá 2013 sem sýndi tæplega 8.000 ásatrúarmenn í Bandaríkjunum og rúmlega 13.000 um heim allan. Þá segir að Jefferson Calico sem skrifar um trúarleg efni telji að árið 2018 séu um 20.000 ásatrúarmenn í Bandaríkjunum. Trúin er viðurkennd innan bandaríska hersins.
Í tilkynningunni frá flugmóðurskipinu Stennis segir að flugrafvirkinn Joshua Wood hafi lagt stund á ásatrú í meira en fimm ár og sé hann tilnefndur forystumaður hópsins um borð í skipinu af yfirmanni þess. Það veiti honum umboð til þess að skipuleggja í kapellu skipsins það sem í blaðinu er kallað sumbel einnig ritað symbel sem er sama orðið og sumbl á íslensku og er notað um blót ásatrúarmanna í Bandaríkjunum.
Í tilkynningu skipsins kemur ekki fram hve margir séu í ásatrúarhópnum um borð í því. Þar er þó einnig nefndur til sögunnar flugrafvirkinn Joshua Shaikoski.
Heita á sjávarguðinn Njörð
Shaikoski fæddist í Noregi og ólst upp í Lútherstrú. Hann segist þó ekki hafa kynnst neinni andlegri reynslu fyrr en hann sneri aftur til Noregs eftir áralanga dvöl í Bandaríkjunum og hitti þar ásatrúarmenn sem leiddu hann inn í trú sína. Síðan hafi hann ekki glatað henni.
Í fréttinni segir að flugmóðurskipið Stennis hafi verið á hafi úti síðan í október og um borð heiti ásatrúarmenn á sjávarguðinn Njörð að sögn Shaikoskis. Sögusagnir um að þeir fórni dýrum séu ósannar. Trúin hafi auðveldað sér að tengjast fólki um borð í skipinu, hann hefði ekki kynnst því að öðrum kosti.
Innan Bandaríkjahers aðhyllast flestir kristna trú. Bandaríska varnarmálaráðuneytið hafði árið 2017 á hinn bóginn skráð 221 trúarhóp innan ólíkra greina heraflans.
Vegur ásatrúar hefur vaxið á ýmsan hátt innan hersins. Stjórn þjóðargrafreitsins Arlington í Washington DC hefur viðurkennt hamar Þórs, Mjölni, sem trúartákn á legsteinum hersins. Á árinu 2018 var hermanni heimilað að skera skegg sitt á þann veg sem hann taldi sýna trú sína á norrænu guðina.
Höfundur: Hope Hodge Seck, hope.seck@military.com. Af vardberg.is, birt með leyfi.